Endurhæfing í og eftir krabbameinsmeðferð
Krabbameinsgreining og krabbbameinsmeðferðir geta reynt mikið á bæði líkamlega og andega. Markmið endurhæfingar er að bæta lífsgæði með því að efla líkamlega, andlega og félagslega virkni og draga þannig úr aukaverkunum meðferðar. Endurhæfing getur hafist við greiningu, í meðferðarferlinu eða eftir að meðferð lýkur, en almennt er talið æskilegt að endurhæfing hefjist eins fljótt eftir greiningu og mögulegt er. Þörf hvers og eins fyrir endurhæfingu er ólík og fer m.a. eftir tegund krabbameins og krabbameinsmeðferðar, aldri, líkamlegu ástandi og félagslegum aðstæðum.
Mikilvægir þættir endurhæfingar:
- Hreyfing: Líkamleg þjálfun er mikilvægur hluti endurhæfingar bæði í og eftir krabbameinsmeðferð. Með hreyfingu er hægt að draga úr ýmsum fylgikvillum sjúkdóms og meðferðar, m.a. þreytu, vöðvarýrnun og streitu auk þess sem hreyfing bætir úthald, orku og svefn.
- Sálrænn stuðningur: Krabbameinsgreining og krabbameinsmeðferð valda álagi og í ferlinu geta komið upp ýmsar tilfinningar og hugsanir. Sálrænn stuðningur, þar sem fólk fær hjálp frá fagfólki við að vinna úr erfiðum tilfinningum og líðan, getur verið mikilvægur þáttur endurhæfingar. Með góðum stuðningi er hægt að minnka álag og draga úr vanlíðan sem skilar sér í bættum lífsgæðum. Sálrænn stuðningur getur farið fram í einstaklingsviðtölum eða í hópmeðferð/hóptímum.
- Félagslegur stuðningur: Endurhæfing snýst einnig um að styðja fólk í að viðhalda virkni í sínu daglega lífi og í sumum tilfellum að aðlagast breyttum félagslegum aðstæðum. Félagslegur stuðningur getur m.a. falist í ráðgjöf varðandi félagsleg réttindi, atvinnumál eða fjölskyldumál.
- Jafningjastuðningur: Það getur verið gagnlegt að hitta aðra sem hafa greinst með krabbamein til þess að spjalla saman, fá innsýn í reynslu annarra, deila reynslu sinni og jafnvel fá góð ráð frá öðrum í svipaðir stöðu. Það er t.d. hægt að taka þátt í jafningjahópum í Ljósinu (https://ljosid.is/hopar-i-ljosinu/ ) eða mæta á námskeið hjá Krabbameinsfélaginu (t.d. Mín leið, Mannamál, Námskeið um síðbúnar og langvinnar aukaverkanir).
- Næring og mataræði: Góð næring og næg orkuinntaka er mikilvæg bæði á meðan krabbameinsmeðferð stendur og eftir að henni lýkur til þess að viðhalda orku og styrk. Aukaverkanir krabbameinsmeðferða, t.d. ógleði, munnþurrkur og breytingar á bragðskyni geta haft áhrif á matarlyst og getu fólks til að borða/nærast. Mikilvægt er að finna leiðir til þess að uppfylla næringarþörf og fyrir suma er gagnlegt að fá ráðgjöf frá næringarfræðingi.
Endurhæfingarúrræði í boði
Ljósið
Ljósið er endurhæfingar‐ og stuðningsmiðstöð fyrir fólk með krabbamein og aðstandendur þess. Markmið Ljóssins er að þjónustuþegar fái þverfaglega endurhæfingu og stuðning hjá sérhæfðum fagaðilum. Þverfaglegt teymi sérfræðinga starfar í Ljósinu.
Teymið samanstendur af iðjuþjálfum, sjúkraþjálfara, hjúkrunarfræðingi, sálfræðingi, næringarráðgjafa, markþjálfa og íþróttafræðingi. Auk þess starfar þar fleira starfsfólk með reynslu í handverki og sköpun. Fjöldi verktaka kemur að sérverkefnum. Þegar einstaklingur kemur í Ljósið fær hann fyrsta viðtal við iðju‐ og sjúkraþjálfara sem eru tengiliðir allt endurhæfingarferlið. Þar er gerð einstaklingsmiðuð endurhæfingaráætlun sem miðar að því að byggja viðkomandi upp andlega, líkamlega og félagslega eftir veikindi og efla þar með lífsgæðin. Nánari upplýsingar og stundatöflu eru hægt að nálgast á www.ljosid.is.
Reykjalundur
Reykjalundur sinnir endurhæfingu krabbameinssjúklinga sem eru í sjúkdómshléi, taldir læknaðir eða í stöðugu ástandi. Beiðni er send frá krabbameinsendurhæfingarteymi Landspítalans og fleirum. Í boði er sjúkraþjálfun, iðjuþjálfun, sálfræðimeðferð, talþjálfun, næringarráðgjöf, starfsendurhæfing, félagsráðgjöf, hjúkrun og læknisfræðileg meðferð, ýmis fræðsla, svo sem verkjaskóli, geðskóli, lungnaskóli og hjartafræðsla. Þar er allur kostnaður greiddur af TR. Í heilsurækt Reykjalundar er hægt að taka þátt í hópþjálfun, fá ráðgjöf og aðgang að sundlaug og tækjasal. Nánari upplýsingar eru á vefsíðunni www.reykjalundur.is.
HNLFÍ
Heilsustofnun Náttúrulækningafélags Íslands (NLFÍ) býður upp á endurhæfingu sem er sérhæfð fyrir krabbameinssjúklinga. Þar er í boði einstaklingsmiðuð þjálfun þar sem sett er upp áætlun um hreyfingu á meðan á dvöl stendur. Dvölin stendur yfirleitt í fjórar vikur en möguleiki er á endurkomu í tvær vikur til viðbótar innan árs frá meðferð.
Í boði er vatnsleikfimi, æfingar í tækjasal, göngur, heilsuböð og slökun. Læknir metur þörfina fyrir sjúkraþjálfun, sjúkranudd, nálastungur, vaxmeðferð eða leirmeðferð. Í boði eru stuðningsviðtöl hjá sálfræðingi, hjúkrunarfræðingi og næringarráðgjafa eftir þörfum. Sumir sjúkra- eða styrktarsjóðir stéttarfélaga greiða styrk vegnar dvalar á NLFÍ. Nánari upplýsingar eru á vefsíðum www.hnlfi.is.
Endurhæfingarteymi fyrir krabbameinsgreinda á Landspítala
Á Landspítalanum starfar fjölfaglegt teymi sem annast endurhæfingu sjúklinga sem greinst hafa með krabbamein. Lögð er áhersla á að sinna þörfum sjúklinga fyrir endurhæfingu óháð meðferð og sjúkdómsstigi, en í forgangi eru þeir sem eru með erfið og fjölþátta einkenni sem hafa mikil áhrif á daglegt líf og lífsgæði.
Önnur stuðnings- og endurhæfingarþjónusta í boði á Landspítala: Upplýsingar um neðangreinda þjónustu er hægt að fá hjá hjúkrunarfræðingum og læknum og á www.landspitali.is. Oftast þarf að fá tilvísun: Félagsráðgjöf, iðjuþjálfun, sjúkraþjálfun, kynlífsráðgjöf, líknarráðgjafateymi, næringarráðgjöf, prestar og djáknar, sálfræðiþjónusta, slökunarmeðferð, talþjálfun, verkjateymi.