Beint í efni

Munn- og tann­heilsa

Það er ávallt mikilvægt að hlúa að munn- og tannheilsu. Til að draga úr vandamálum henni tengdri sem geta komið upp í krabbameinsmeðferð er mikilvægt að borða holla fæðu, fara reglulega til tannlæknis og sinna vel tann- og munnhirðu.

Ástæður munn- og tannvandamála í tengslum við krabbameinsmeðferðir:

  • Geislameðferð getur valdið skemmdum á slímhúð, munnvatnskirtlum og beinvef.
  • Lyfja- og geislameðferðir hafa það markmið að hægja á eða stöðva vöxt og endurnýjun krabbameinsfruma. Meðferðirnar geta haft sambærileg áhrif á starfsemi annarra fruma sem vaxa hratt og endurnýja sig ört, þar á meðal frumur í slímhúð sem þekur munninn að innan.
  • Lyfja- og geislameðferðir geta raskað eðlilegri bakteríuflóru í munni, meðal annars með því að hafa neikvæð áhrif á slímhúð og eða munnvatnsframleiðslu. Ójafnvægi í bakteríuflóru munnsins getur leitt til munnsára, sýkinga og tannskemmda.

Mögulegar langvinnar/síðbúnar aukaverkanir á munn- og tannheilsu:

  • Munnþurrkur.
  • Eymsli og óþægindi í munni.
  • Kyngingarörðugleikar.
  • Slímhúð í munni getur verið rauð og viðkvæm.
  • Breyting á bragðskyni.
  • Andfýla.
  • Auknar líkur á tannskemmdum.
  • Tennur geta orðið stökkari/brothættari.
  • Skemmdir á kjálkabeini.
  • Vannæring og/eða ofþornun vegna vandamála við inntöku matar eða drykkjar.

Góð ráð við munn- og tannvandamálum

  • Bursta tennur a.m.k. tvisvar sinnum á dag með mjúkum bursta og flúortannkremi.
  • Mýkja burstahárin áður en burstað er með því að halda burstanum undir heitu vatni í nokkrar sekúndur.
  • Velja sápulaust tannkrem með mildu bragði, sterkt bragð getur valdið óþægindum.
  • Tyggja sykurlaust tyggjó eða sykurlausar munnvatnsörvandi bragðtöflur til að örva munnvatnsframleiðslu.
  • Nota gervimunnvatn sem fæst í apótekum, en þar er einnig að finna sprey og gel sem vinna gegn munnþurrki.
  • Nota tannþráð daglega en forðast að særa viðkvæmt tannholdið.
  • Nota munnskol sem ekki inniheldur alkóhól.
  • Bera varasalva eða vaselín á varirnar.
  • Borða mat sem þarf að tyggja, það eykur munnvatnsframleiðslu.
  • Ekki nota sætindi til að lina munnþurrk, þar sem sætindi auka líkur á tannskemmdum.
  • Reykingafólk sem fær höfuð- eða hálskrabbamein ætti að reyna að hætta að reykja. Það getur haft mikið að segja fyrir munn- og tannheilsu.

Heimildir

Oral Complications of Cancer Therapies (PDQ®)–Patient Version

Munn-/tannproblemer og nedsatt smaksfunksjon - Kreftforeningen

senfoelgerrapport_2oplag_webudgave_210120.pdf (cancer.dk)