Beint í efni

Krabba­meins-tengd þreyta

Krabbameinstengdri þreytu má lýsa sem óvenju mikilli og íþyngjandi þreytu. Hún er ólík venjulegri þreytu, leggst mismunandi á fólk og það er erfitt að sofa hana úr sér. Sumir upplifa skerta orku á meðan aðrir eru meira og minna rúmliggjandi.

Þreytan er jafnframt óáþreifanleg og yfirleitt ekki hægt að greina hana með blóðprufum eða öðrum líkamlegum mælingum. Orsakir hennar eru ólíkar og oft samsettar. Hún getur komið fram vegna krabbameinsmeðferða, verkja, blóðleysis, tilfinningalegs álags, svefnleysis, skertrar næringarinntöku, lyfja, lítillar hreyfingar eða breytinga á hormónastarfsemi líkamans. Þá geta þreytueinkenni verið meiri og varað lengur hjá eldra fólki en þeim sem yngri eru.

Krabbameinstengdri þreytu má skipta í tvennt, eftir því hve lengi hún stendur yfir:

  • Tímabundin eða skammvinn krabbameinstengd þreyta
    sem tengist sjúkdómnum eða krabbameinsmeðferðinni beint. Eftir að meðferð lýkur dregur hægt og rólega úr einkennum.
  • Langvinn eða síðbúin krabbameinstengd þreyta
    sem getur komið fram eftir að meðferð lýkur eða er enn til staðar meira en sex mánuðum síðar. Hún getur varað mánuðum eða árum saman og í sumum tilfellum er hún varanleg. 

Krabbameinstengd þreyta er algengasta langtíma aukaverkunin eftir krabbamein og krabbameinsmeðferð.

Þar sem krabbameinstengd þreyta er óáþreifanleg virðast margir hraustari og betur upplagðir en þeir eru í raun og veru. Þetta getur haft í för með sér að fólk upplifi óraunhæfar kröfur frá umhverfinu. Í slíkum aðstæðum er mikilvægt að ræða um líðan sína við fólkið í kringum sig.

Krabbameinstengd þreyta getur lýst sér sem:

  • Orku- og úthaldsleysi, syfju, sljóleika, depurð og leiða
  • Vanlíðan, vera úrvinda, búin á því og finna til vanmáttar
  • Einbeitingarskort, minnistruflanir og þunglyndiseinkenni
  • Erfiðleika við að koma fyrir sig orði
  • Örðugleika við lestur, gleyma jafnóðum því sem búið er að lesa
  • Lengri tíma til að jafna sig eftir líkamlega eða andlega áreynslu
  • Þreytu í ósamræmi við áreynslu
  • Hamlandi, kemur í veg fyrir daglegar venjur eins og að stunda vinnu og verja tíma með vinum og fjölskyldu