Beint í efni

Frjó­semi

Sumar krabbameinsmeðferðir geta dregið úr frjósemi. Í einhverjum tilfellum eru áhrifin tímabundin, en í öðrum valda meðferðir ófrjósemi til frambúðar.

Skert frjósemi getur orsakast af:

  • krabbameinsæxli sem skaðar innri eða ytri kynfæri
  • skurðaðgerð þar sem hluti af kynfærum eins og eggjastokkum, legi, leghálsi, eistum eða typpi, er fjarlægður
  • ákveðnum krabbameinsmeðferðum sem geta valdið skaða á eggjastokkum eða eistum með þeim afleiðingum að framleiðsla kynhormóna truflast og hefur þannig skaðleg áhrif á frjósemi
  • sálfræðilegum eða tilfinningalegum viðbrögðum vegna krabbameins, t.d. streitu og kvíða

Þessi atriði geta hvert fyrir sig, eða saman, haft neikvæð áhrif á frjósemi og getuna til að eignast barn.

Dæmi um áhrif krabbameinsmeðferða á frjósemi kvenna:

  • Ef báðir eggjastokkar eða leg eru fjarlægð verða konur ófrjóar.
  • Krabbameinslyfjameðferð getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi hjá konum. Áhrifin á frjósemina eru þó mismunandi og fara eftir því hvaða lyf eru notuð, skammtastærðum, aldri o.fl.
  • Geislameðferð nálægt kynfærum kvenna getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi.
  • Andhormónameðferð hjá konum byggist á því að minnka eða hindra virkni estrógens, en það hefur í för með sér skerta frjósemi. Áhrifin geta þó gengið til baka og frjósemi aukist aftur eftir að meðferðinni lýkur.

Ef konur vilja eiga möguleika á því að eignast börn eftir krabbameinsmeðferð er mjög mikilvægt að ræða fyrirfram við lækni eða hjúkrunarfræðing um hvort meðferðin muni hafa áhrif á frjósemina. Ef talið er að meðferð hafi langtíma eða varanleg áhrif á frjósemi er möguleiki á að frysta ófrjóvguð egg eða fósturvísa.

Dæmi um áhrif krabbameinsmeðferða á frjósemi karla:

  • Ef bæði eistu eru fjarlægð verða menn ófrjóir.
  • Krabbameinslyfjameðferð getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi. Áhrif á frjósemina eru þó mismunandi og fara eftir því hvaða lyf eru notuð, skammtastærðum, aldri o.fl.
  • Ef eitlar nálægt kynfærum, blöðruhálskirtli eða sáðblöðrum eru fjarlægðir í skurðaðgerð getur það valdið skertri frjósemi.
  • Geislameðferð nálægt kynfærum getur valdið tímabundinni eða varanlegri ófrjósemi.
  • Andhormónameðferð byggist á því að minnka eða hindra virkni testósteróns og hefur í för með sér skerta frjósemi. Áhrifin geta þó gengið til baka og frjósemi aukist eftir að meðferð lýkur.

Ef karlar vilja eiga möguleika á því að eignast börn eftir krabbameinsmeðferð er mjög mikilvægt að ræða fyrirfram við lækni eða hjúkrunarfræðing um hvort meðferðin muni hafa áhrif á frjósemina. Í sumum tilfellum er sæði fryst áður en meðferð hefst.

Krabbameinsmeðferð getur haft áhrif á framleiðslu testósteróns. Þeir sem upplifa einkenni á borð við þreytu og orkuleysi, hitakóf, minni afköst, skerta kynlöngun og/eða kyngetu þurfa í sumum tilfellum á testósterón-meðferð að halda.

Heimildir

Fertilitet ved kreftsykdom

Kræftbehandling og fertilitet

Kvinders muligheder for at få børn efter kræft

Mænds muligheder for at få børn efter kræft

Kvinders muligheder for at få børn efter kræft