Breytt líkamsímynd
Líkamsímynd er hluti af sjálfsmynd fólks og snýr að hugsun, upplifun og tilfinningu til eigin líkama. Hún hefur áhrif á andlega heilsu og lífsgæði og því mikilvægt að hún sé jákvæð.
Sumar breytingar sem fólk upplifir á líkama sínum við krabbameinsgreiningu og/eða meðferð eru sýnilegar en aðrar ekki. Þyngdartap, þyngdaraukning, sogæðabjúgur eða ör eftir skurðaðgerð eru allt sýnilegar breytingar á meðan ófrjósemi og þreyta sjást ekki en hafa engu að síður mikil áhrif. Þá upplifa sumir að líkaminn hafi svikið sig og eiga erfitt með að treysta honum eftir að hafa greinst með krabbamein.
Breytt líkamsímynd getur falið í sér breytingar á því hvernig:
- líkaminn lítur út
- líkaminn starfar
- þú upplifir líkamann
Birtingarmynd breyttrar líkamsmyndar er ólík hjá hverjum og einum. Sumir eru óánægðir með líkama sinn og hafa minna sjálfstraust. Öðrum finnast þeir eldast hratt í útliti í kjölfar krabbameinsmeðferðar og kannast ekki við sig í speglinum.
Sumum er það áhyggjuefni hvernig þau koma öðrum fyrir sjónir eða hvaða áhrif breyttur líkami hefur á náin sambönd. Breytt líkamsímynd getur einnig í sumum tilfellum orðið til þess að fólk einangrar sig. Áhyggjur af því hvað öðrum finnst verða þá til þess að þau forðast aðstæður þar sem aðrir geta séð líkama þeirra (t.d. sund eða líkamsrækt), forðast líkamlega nánd og jafnvel að fara út á meðal fólks. Slík hegðun getur til lengri tíma valdið enn meiri vanlíðan og áhyggjum og haft hamlandi áhrif á samskipti og athafnir daglegs lífs.
Heimildir
Body image and cancer - Macmillan Cancer Support