Beint í efni

Hag­nýt ráð fyr­ir jólin - Gefðu þér leyfi til að hafa jólin eins og þér hentar best

Fyrir flesta eru jólin gleðilegur tími sem við eyðum með fjölskyldu og vinum. Jólin geta hins vegar verið erfiður tími fyrir fjölskyldur sem eru að takast á við krabbamein og aukaverkanir meðferðar.

Ráðgjafar- og stuðningsteymi Krabbameinsfélagsins hefur tekið saman nokkur hagnýt ráð fyrir jólin sem við vonumst til að komi að gagni.

Sýndu þér mildi

Gefðu þér leyfi til að hafa jólin eins og þér hentar best. Aðlagaðu kröfurnar sem þú setur á þig og sýndu ástandi þínu skilning og þolinmæði. Það þarf ekki allt að ganga upp og vera 100%.

Samvera

Fyrir flesta snúast jólin um samveru með fjölskyldu og vinum. Reyndu að nota sem mest af orkunni í að vera í kringum fólkið þitt. Ræddu við fjölskyldu og vini um hvað þú treystir þér til að gera og gerðu áætlun.

Biddu um aðstoð

Ekki vera hrædd/-ur við að biðja um aðstoð um jólin ef þú ert að ganga í gegnum erfiða tíma. Það gæti verið hjálplegt að búa til lista yfir þau verkefni sem þú þarft aðstoð með og deila honum með fjölskyldu og vinum í stað þess að nota alla orkuna í þrif, skreytingar, matargerð o.s.frv.


Það er í lagi að brjóta upp hefðirnar og prófa eitthvað nýtt

Hafðu í huga að þegar aðstæður breytast þá geta hefðir oft breyst líka. Jólin þurfa ekki að vera nákvæmlega eins og þau voru síðustu ár. Jólin snúast mikið til? um að njóta samveru hvers annars og það er hægt að gera þó að hefðirnar breytist.

Gefðu þér tíma til að hvílast

Hátíðarnar geta reynt á, bæði andlega og líkamlega. Ef þú eða aðstandandi eruð að ganga í gegnum krabbameinsmeðferð skaltu setja tíma til að hvílast í forgang. , Eðlilegt er að finna dagamun á líðan og orku og sumir dagar eru erfiðari en aðrir. Leyfðu þér að hætta við plön án sektarkenndar ef það kemur á daginn að þú treystir þér ekki til að taka þátt í þeim.

Haltu streitu í lágmarki

Að borða hollt, hreyfa sig (eins og heilsa leyfir) og sofa vel getur hjálpað við að ná betri stjórn á streitu og erfiðum tilfinningum. Mörgum finnst gott að hugleiða eða nota slökun.

Matargerð

Hafðu í huga að eldamennskan tekur orku og getur því mögulega komið í veg fyrir að þú getir notið þess sem á eftir kemur. Athugaðu hvort einhver annar geti eldað þetta árið eða hvort hægt sé að hafa einfaldari jólamat í þetta sinn. Mögulega er hægt að panta mat og fá sent heim í stað þess að elda eða jafnvel fara á veitingastað.

Hafðu þetta einfalt

Íhugaðu að sleppa því að halda stór jólaboð, sérstaklega ef krabbameinslyfjameðferð er yfirstandandi. Biddu einhvern annan um að halda boðið, farið á veitingastað eða haldið minna boð.

Það getur verið gagnlegt og dregið úr streitu að búa til áætlun um hvernig tekist er á við krabbameinið og afleiðingar þess yfir hátíðirnar. Hvernig minnka megi kröfurnar með það að markmiði að reyna að njóta frekar en að eltast við hefðirnar og það sem maður er vanur að gera.