Beint í efni

Góðar leið­ir til að losa um upp­safn­aða spennu í gegn­um bolta- og band­vefs­los­un og Yin Yoga

Æfingar sem þú getur gert í stofunni heima þegar þér hentar. Markmiðið er að mýkja svæði líkamans og losa um uppsafnaða spennu, næra djúpvefi, bein og liðamót.

Boltar- og bandvefslosun

Boltar- og bandvefslosun er létt sjálfsnudd með blöðrubolta þar sem við erum annars vegar að mýkja þau svæði líkamans sem eiga það til að safna spennu, og hins vegar að virkja sefkerfið eða slakandi hluta taugakerfisins.

Við erum líka að losa um bandvefinn, sem er stoðvefur og hefur þann tilgang að tengja saman mismunandi vefi og vera milliliður í flutningi næringarefna og taugaboða. Bandvefurinn tengir líkamann saman. Hann umkringir vöðva, frumur, sinar, líffæri og bein. Ef rennsli milli bandvefslaga minnkar verður vefurinn þurr, sem getur haft áhrif á hreyfigetu. Bakverkir, höfuðverkir og stirðleiki eru algengar afleiðingar af of stífum bandvef.

Við notum djúpa öndun til að hjálpa okkur að slaka betur á, hreyfum okkur í takt við andardráttinn og æfum okkur í að hlusta á líkamann.  Í lokin er stutt slökun.

Það er alltaf gott að byrja varlega og bæta frekar í eftir því sem við notum boltann oftar.

Hrafnhildur Sævarsdóttir, íþrótta- og yogakennari leiðir tímann. Unnið í samstarfi við Saga story house.

Yin Yoga

Mjúkar stöður sem gerðar eru niður við gólf, sitjandi og liggjandi. Stöðunum er haldið í mýkt og slökun í 3-5 mín. Markmiðið er að losa um uppsafnaða spennu, næra djúpvefi, bein og liðamót.

Stöðurnar eru stuttar núvitundarhugleiðslur sem efla vellíðan með því að taka eftir því sem gerist innra með okkur með væntumþykju. Þú verður meðvitaðri um tilfinningar, hugsanir og því sem þú finnur fyrir í líkamanum með núvitundarþjálfun.

Farið er varlega í og úr stöðunum, athyglinni beint að andardrættinum og notið þess að hlúa að líkama og sál.

Það er gott að byrja á því að halda stöðunni í 3 mín og auka svo tímann og dýpka stöðuna eftir því sem þú ferð oftar í Yin Yoga.  

Áherslan í þessum tíma er á miðju líkamans, mjaðmirnar, hlúum að hryggjarsúlunni og í lokin er góð slökun.  

Hrafnhildur Sævarsdóttir, íþrótta- og yogakennari leiðir tímann. Unnið í samstarfi við Saga story house.