Girnilegur jólabakki. Ásamt uppskriftum að ostakúlu, frækexi, linsubaunahummus og ristuðum kjúklingabaunum
Til að njóta hátíðanna á heilsusamlegri hátt er til að mynda hægt að velja léttari valkosti eða útfæra nýjar uppskriftir þar sem grænmeti, ávextir og heilkorna vörur ásamt baunum eru í forgrunni.
Samkvæmt eldri hefðum er oft tilhneiging til að borða mikið af söltum, fituríkum, sykruðum og mikið unnum mat yfir hátíðirnar. Þó að ljúft sé og mikilvægt að njóta nostalgíunnar sem felst í gömlum venjum er líka hægt að gefa hollustunni rými.
Hægt er að auka hlut grænmetis, ávaxta, heilkorna vara og bauna á ýmsan hátt og bæta þannig við hollustuna. Meðal annars er hægt að huga vel að því hvað við setjum á ostabakkana, til dæmis er hægt að skipta unnum kjötvörum að hluta eða alveg út fyrir aðra kosti. Sömuleiðis er hægt að kanna saltmagn ostanna og velja frekar þá sem saltminni eru.
Grænmeti og ávextir eru stútfullir af heilsusamlegri næringu eins og vítamínum, steinefnum og ýmsum plöntuefnum. Grænmeti, ávextir, heilkornavörur og baunir innihalda einnig mikið magn trefja sem eru góðar fyrir meltinguna og þarmaflóruna.
Við getum alveg leyft okkur að njóta klassísks jólamatar en hugum að magninu. Bætum hollari valkostum inn þar sem hægt er t.d. sem meðlæti með jólamatnum, sem millimáli eða jafnvel með því að bæta inn heilkornum við smákökugerðina.
Uppskriftir
Rjómaostur (etv. með bragði), þjappaðir saman í kúlu með t.a.m. plastfilmu.
Kasjúostur:
1 ½ bolli (um 210 g) kasjúhnetur, lagðar í bleyti í nokkra klukkutíma (eða yfir nótt)
4-6 msk vatn
1-2 msk sítrónusafi
½ tsk salt
5-6 g næringarger (valkvætt)
½ tsk hvítlauksduft (valkvætt)
1 hvítlauksrif, pressað (valkvætt)Aðferð:
- Þegar kasjúhneturnar hafa legið í bleyti yfir nótt (eða amk. 4 klst), hellið vatningu frá og setjið þá öll hráefnin í blandara eða matvinnsluvél.
- Blandið þar til blandan er orðin silkimjúk.
- Rúllið síðan upp í kúlu með t.a.m. plastfilmu og geymið í kæli á meðan skrautið er undirbúið (má vera lengur).
Hægt er að bragðbæta kúluna með hvítlauk (eins og í uppskrift hér að ofan), sítrónubörk, herbs de provence, laukdufti eða söxuðum sólþurrkuðum tómötum.
Fyrir skrautið: Skerið og saxið t.d. valhnetur, steinselju og trönuber, blandið því saman og skreytið ostakúluna með því að rúlla ostinum upp úr blöndunni.
40 g chiafræ
40 g hörfræ
___________________
40 g sesamfræ
75-80 g graskersfræ
75-80 g sólblómafræ
2-2.5 dl vatn
1 tsk salt
½-1 tsk oregano eða annað krydd eftir smekkAðferð:
- Setjið chiafræ, hörfræ og 2 dl af vatni í skál og leyfið að standa í um 30 mínútur.
- Hitið ofninn í 150°C með blæstri.
- Bætið síðan restinni af hráefnunum; sesamfræjum, graskersfræjum, sólblómafræjum, salti og þurrkaða kryddinu og hrærið vel saman. Hægt er að bæta við restinni af vatninu eða hluta af því saman við ef að blandan virkar enn aðeins þurr.
- Settu síðan bökunarpappír á ofnplötu og dreifðu vel úr blöndunni svo að hún sé nokkuð þunn og einnig jöfn á alla kanta. Einnig er hægt að setja bökunarpappír yfir til að slétta vel úr og taka hann svo af áður en platan fer í ofninn.
- Bakið frækexið í um 30 mínútur. Takið síðan út og skerið t.d. með pizzahníf í hæfilega stóra teninga. Bakið kexið síðan í 10 mínútur til viðbótar (hægt er að velja að snúa kexinu við eða setja það beint aftur inn í ofn).
1 dl þurrar linsubaunir
2 dl vatn
________________
2 hvítlauksrif
2 msk tahini (eða hnetusmjör)
safi úr ½ sítrónu (5-10 g)
2 msk olía að eigin vali (t.d. bragðminni olífuolía)
1 tsk broddkúmen, eða eftir smekk
½ tsk salt, eða eftir smekk
einnig hægt að bæta við möluðu túrmeriki, kóríander, cayenne, pipar og laukdufti eftir smekkAðferð:
- Skolið 1 dl af linsubaunum í sigti og sjóðið þær síðan í potti á móti 2 dl af vatni í 10 mínútur við miðlungs hita. Hægt að bæta við smá af saltinu út í vatnið.
- Setjið síðan allavega 240 g af soðnum linsubaunum og restina af hráefnunum í matvinnsluvél (eða notið töfrasprota) og blandið saman þar til hummusinn er orðinn silkimjúkur. Hægt að bæta við meiri olíu eða vatni til að fá ákjósanlega áferð.
Hægt að skreyta með smá olíu, paprikudufti, fersku kóríander eða steinselju.
2 dósir kjúklingabaunir, skolaðar og þurrkaðar
2 tsk paprikukrydd, eða eftir smekk
½-1 tsk cayenne pipar, eða eftir smekk
1 tsk laukduft, eða eftir smekk
½-1 tsk hvítlauksduft, eða eftir smekk
½ tsk reykt paprika, valkvætt
1-3 msk ólífuolía, eftir smekk
salt og pipar eftir smekkAðferð:
- Skolið kjúklingabaunirnar í sigti og setjið í skál. Þurrkið e.t.v. létt með viskastykki.
- Bætið kryddunum út á og hrærið vel.
- Setjið olíu yfir og bakið í ofni í um 30-50 mínútur við 180 gráður. Gott að fylgjast vel með og hræra aðeins upp í baununum reglulega. Lengdin fer síðan aðeins eftir ofnum og hversu stökkar þær eiga að verða.
- Einnig hægt að steikja á pönnu í um 10 mínútur.