Beint í efni

Nýrna­krabba­mein

Vegna þess að myndrannsóknir eru nú mikið notaðar í tengslum við ýmis einkenni frá kviðarholi uppgötvast meiri hluti nýrnakrabbameina nú orðið með þeim hætti. Þessi mein eru algengari meðal karla en kvenna. Tóbaksreykingar og hár blóðþrýstingur auka líkur á sjúkdómnum.

Hvað er nýrnakrabbamein?

Í hvoru nýra er um ein milljón gaukla (glomeruli) og pípla (tubuli) sem eru eins konar hreinsunarstöðvar. Þar eru skilin úr blóðinu úrgangsefni, einkum niðurbrotsefni próteina. Um 1.500 lítrar af blóði streyma í gegnum nýrun á hverjum sólarhring og í gauklum skiljast út um 180 lítrar af svonefndu frumþvagi. Í píplum er mestur hluti af frumþvaginu, vatni og söltum frásogaður aftur inn í blóðið og skilst því aðeins út um einn og hálfur lítri þvags á sólarhring. Auk þess að hreinsa blóðið stjórna nýrun salta- og vökvajafnvægi líkamans ásamt sýrustigi og aðstoða við að halda blóðþrýstingi í eðlilegu horfi. Nýrun framleiða enn fremur nokkur mikilvæg hormón, sem hafa áhrif á blóðþrýsting og blóðmyndun.

Nýrnakrabbamein myndast oftast í þekjufrumum nýrnapípla. Kallast þau nýrnafrumukrabbamein og eru 80-90% illkynja æxla í nýrum. Nokkrar vefjagerðir nýrnafrumukrabbameins eru til en algengust eru tærfrumuæxli (clear cell adenocarcinoma) og totufrumuæxli (papillary carcinoma). Wilms-æxli (nephroblastoma), sem greinast aðallega í börnum, geta orðið mjög stór. Algengustu einkenni þeirra eru kviðverkir og þaninn kviður. Wilms-æxli eru annars eðlis en nýrnafrumukrabbamein og í flestum tilvikum er hægt að lækna Wilms-æxli með skurðaðgerð en stundum er bætt við meðferð með geislum og krabbameinslyfjum. Umfjöllunin hér miðast við nýrnafrumukrabbamein.

Helstu einkenni

Nýrnakrabbamein eru yfirleitt talin vaxa hægt og æxli geta orðið stór áður en einkenni koma fram. Algengt er einnig að nýrnakrabbamein finnist fyrir tilviljun á myndgreiningarrannsókn vegna annarra vandamála og hafi þá ekki enn gefið einkenni.

  • Blóð í þvagi er algengasta einkennið, jafnvel einungis í nokkur skipti. Mjög misjafnt er hvenær æxli í nýrum gefa sig til kynna með blóði í þvagi. Það hendir að fram komi blæðing frá litlum æxlum en á hinn bóginn uppgötvast stundum mjög stór æxli í nýrum sem ekkert hefur blætt frá.
  • Verkir í kvið
  • Fyrirferðaraukning í kvið
  • Þreyta
  • Nætursviti
  • Hitaköst
  • Blóðþrýstingshækkun
  • Þyngdartap

Greining

Ef grunur leikur á æxlisvexti í nýra er fyrsta rannsóknin oftast tölvusneiðmyndataka eða ómskoðun. Í einstaka tilfellum kemur til greina að gera segulómskoðun á nýrunum. Einnig er tekin tölvusneiðmynd af lungum og ef einkenni gefa tilefni til er gert beinaskann þar sem athugað er hvort sjúkdómurinn hafi dreift sér til lungna.

Þegar til aðgerðar kemur er sjúka nýrað fjarlægt, annað hvort í heilu lagi eða einvörðungu sá hluti þess þar sem æxlið er. Endanleg greining æxlis er gerð með smásjárrannsókn æxlisins. Ef greining fyrirferðar er óljós er stöku sinnum tekið vefjasýni úr meininu með grófnál til smásjárgreiningar fyrir aðgerð. Vegna þess að tölvusneiðmyndir, ómskoðanir og segulómun eru nú mikið notaðar við rannsóknir á ýmsum einkennum frá kviðarholi uppgötvast æxli í nýrum nú æ oftar fyrir tilviljun og á síðustu árum hefur meiri hluti nýrnakrabbameina greinst með þeim hætti, eins og áður sagði.

Meðferð

Meginmeðferð við nýrnakrabbameini er skurðaðgerð. Ef æxlið hefur ekki dreift sér nægir aðgerðin ein og sér. Stundum nægir að fjarlægja aðeins æxlið sjálft eða hluta af sjúka nýranu. Ef hitt nýrað starfar eðlilega nægir það sjúklingnum til að hreinsa blóðið og framleiða þvag. Í sumum tilvikum kemur til greina vöktuð bið, sérstaklega ef æxlið er lítið og viðkomandi er kominn við aldur eða er heilsulítill. Í einstaka tilfellum er hægt að fjarlægja meinvörp nýrnafrumukrabbameins, sérstaklega ef um stakt meinvarp er að ræða. Viðbótarmeðferð með krabbameinslyfjum hefur þróast mikið undanfarin ár. Ef ekki reynist unnt að fjarlægja allt meinið með skurðaðgerð eða ef meinið er útbreitt við greiningu er oft hægt að meðhöndla það með lyfjum.

Áhættuþættir og forvarnir

Orsakir nýrnakrabbameins eru ekki ljósar, en þekktir eru nokkrir áhættuþættir sem auka líkur á að fá sjúkdóminn.

  • Tóbaksreykingar eru mikill áhættuþáttur og er talið að þær eigi þátt í myndun um 20-30% tilfella.
  • Offita er talin auka áhættuna.
  • Hár blóðþrýstingur.
  • Umhverfismengandi efni, eins og þungmálmarnir blý og kadmíum.
  • Erfðir geta komið við sögu en í flestum tilfellum er ekki um þekkta erfðaþætti að ræða.

Tölfræði og lífshorfur

Sjúkdómsgangur nýrnakrabbameins er mjög breytilegur. Horfur sjúklinga eru háðar því hversu snemma meinið greinist. Um þriðjungur sjúklinga er með fjarmeinvörp þegar þeir greinast og eru innan við 15% þeirra á lífi fimm árum síðar. Horfur hafa batnað á síðustu áratugum, sem byggist einkum á því að æxlin greinast fyrr. Almennt eru nú um 67% sjúklinga á lífi fimm árum eftir greiningu. Fyrir sjúklinga með lítil og staðbundin æxli eru fimm ára lífshorfur allt að 90%.

Þrátt fyrir að sjúklingur sé kominn með fjarmeinvörp við greiningu æxlis getur verið erfitt að spá nákvæmlega fyrir um framvindu sjúkdóms. Bestar horfur hafa þeir sem greinast fyrir tilviljun, þ.e. án þess að sjúkdómurinn sé farinn að gefa einkenni.

Upplýsingar frá Rannsóknarsetri - Krabbameinsskrá