Beint í efni

Lungna­krabba­mein

Lungnakrabbamein er meðal algengustu krabbameina á Íslandi og er það krabbamein sem veldur flestum dauðsföllum. Langflest tilfelli lungnakrabbameins tengjast tóbaksreykingum.  Krabbamein í lungum byrjar að myndast mörgum árum áður en það fer að gefa nokkur einkenni, jafnvel 15-20 árum áður.

Lungun eru hluti öndunarfæranna sem eru mynduð úr lungum með berkjum (lungnapípum), ásamt barka og nefholi. Í lungunum eru um það bil 300 milljón lungnablöðrur.

Hvað er lungnakrabbamein?

Lungnakrabbamein er upprunnið í frumum lungna. Það skiptist í tvær megingerðir eftir vefjafræðilegri flokkun, smáfrumukrabbamein og þau sem ekki flokkast sem smáfrumukrabbamein en það eru flöguþekjukrabbamein, kirtilþekjukrabbamein og stórfrumukrabbamein. 

Smáfrumukrabbamein er illvígasta gerðin og hafa sjúklingar með þessa gerð æxla almennt verstar horfur þar sem sjúkdómurinn er oftar útbreiddur við greiningu.

Helstu einkenni

  • Þrálátur hósti er algengur hjá reykingamönnum vegna ertingar af völdum tóbaksreyks. Stöðugan hósta ber að taka alvarlega og rannsaka. Algengara er þó að hósti sé tilkominn vegna annars sjúkdóms, eins og lungnaþembu eða langvinnrar berkjubólgu.
  • Að hósta upp blóði er alvarlegt einkenni sem þarf að rannsaka.
  • Hæsi eða brjóstverkur.
  • Lystarleysi, slappleiki, þyngdartap eða langvarandi hiti.

Greining

Ef sterkur grunur er um lungnakrabbamein við skoðun og rannsóknir heimilislækna er sjúklingi vísað til frekari rannsókna hjá lungnalækni og þaðan í svokallað greiningarferli lungnakrabbameina.

Málefni allra  sem greinast með lungnakrabbamein eru rædd innan þverfaglegs vinnuhóps fagaðila um lungnakrabbamein þar sem ráðleggingar eru gefnar um frekari rannsóknir og meðferð.

Helstu greiningaraðferðir

  • Ef vísbendingar eru um lungnakrabbamein er venjan að senda viðkomandi í röntgenmyndatöku og/eða tölvusneiðmyndatöku af lungum.

  • Ef æxli kemur í ljós í myndrannsókn er oftast gerð berkjuspeglun til að taka vefjasýni úr æxlinu. Í gegnum speglunartæki sem þrætt er niður öndunarveginn og niður í berkjur er unnt að taka vefja- og/eða frumusýni úr meininu til greiningar. Stundum er gerð ástunga á meinið með nál í gegnum brjóstkassann, oftast með aðstoð tölvusneiðmyndatækni.

  • Með rannsókn á frumu- eða vefjasýni er hægt að meta hvort um illkynja eða góðkynja mein sé að ræða og þá hvers konar æxli.

  • Ef illkynja frumur greinast í sýninu eru gerðar frekari rannsóknir til að kanna útbreiðslu sjúkdómsins innan brjóstkassa annars vegar og hins vegar til annarra líffæra og sjá á hvaða stigi sjúkdómurinn er. Eftir það er hægt að ákveða hvaða meðferð eigi best við.

Meðferð

Meðhöndlun lungnakrabbameins byggir á samvinnu fagaðila um lungnakrabbamein.

Skurðaðgerð

Um þriðjungur æxla eru skurðtæk og eru það helst þau sem ekki hafa dreift sér. Í aðgerðinni er æxlið fjarlægt ásamt aðlægum eitlum en stundum er nauðsynlegt að fjarlægja annað lungað.

Krabbameinslyfjameðferð

Ef meinið finnst í nálægum eitlum eða ef ekki er unnt að fjarlægja það með skurðaðgerð er oft gefin krabbameinslyfjameðferð. Miklar framfarir hafa orðið í lyfjameðferð lungnakrabbameins sem leitt hafa til betri lífsgæða og lengri lifunar.

Geislameðferð

Geislameðferð, með eða án krabbameinslyfjameðferðar, er oft beitt þegar ekki er unnt að fjarlægja lungnakrabbamein með skurðaðgerð. Stundum er geislameðferð beitt í þeim tilgangi að lækna meinin, en oftar til þess að halda aftur af sjúkdómnum.

Áhættuþættir og forvarnir

  • Beinar og óbeinar reykingar. Tóbaksreykur hefur neikvæð áhrif á hreinsun úrgangsefna úr öndunarveginum og leiðir það til þess að mörg krabbameinsvaldandi efni í tóbaksreyknum geta safnast fyrir í lungunum og valdið skemmdum á erfðaefni fruma.

    Áhættan á lungnakrabbameini minnkar strax fimm árum eftir að reykingum er hætt og verður allt að 30-50% minni 15 árum eftir að reykingum er hætt. Fólk sem andar að sér tóbaksreyk frá öðrum er einnig í aukinni áhættu. 
  • Fjölskyldusaga. Þeir sem hafa fjölskyldusögu um lungnakrabbamein geta verið í aukinni áhættu að fá lungnakrabbamein, sérstaklega ef þeir eru reykingamenn.
  • Asbest og önnur efni, svo sem arsenik, nikkel og sinnepsgas ásamt sumum loftmengandi efnum í stórborgum, geta stuðlað að lungnakrabbameini. Asbest er bannað hér á landi og eru til reglugerðir sem vernda þá sem vinna við asbest, eins og við niðurrif á gömlum húsum. 
  • Radon er náttúrulegt geislavirkt gas sem í háum styrkleika getur aukið hættu á lungnakrabbameini. Lítið sem ekkert af radoni finnst í húsum á Íslandi, í samanburði við nágrannalönd, eða langt undir viðmiðunarmörkum Evrópusambandsins.

Tölfræði og lífshorfur

Lífshorfur þeirra sem greinast með lungnakrabbamein eru almennt ekki góðar en hafa farið batnandi á síðustu árum. Það sem helst spáir fyrir um lífshorfur er á hvaða stigi sjúkdómurinn er og hvort og hvernig hann hafi breiðst út.

Upplýsingar frá Rannsóknarsetri - Krabbameinsskrá