Ávinningur þess að skima fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi
Markmiðið er að fækka þeim sem deyja af völdum krabbameina í ristli og endaþarmi og fækka þeim sem greinast með slík mein.
Krabbamein í ristli og endaþarmi er eitt þriggja krabbameina sem alþjóðlegar stofnanir mæla með að sé skimað fyrir. Hin eru brjósta- og leghálskrabbamein.
Skimun (eða hópleit) þýðir að leitað er að krabbameini hjá einkennalausum einstaklingum.
Engin skipulögð skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi er í boði á Íslandi. Á meðan svo er ráðleggur Krabbameinsfélagið fólki að leita til læknis um fimmtugt og spyrjast fyrir um þessi mál.
Algeng krabbamein
Krabbamein í ristli og endaþarmi eru algeng krabbamein, árlega greinast að meðaltali tæplega 190 einstaklingar hérlendis, bæði karlar og konur. Þessi tegund krabbameina er önnur algengasta dánarorsök af völdum krabbameina á Íslandi, að meðaltali látast tæplega 70 árlega úr sjúkdómnum.
Í slímhúð ristils og endaþarms getur orðið óeðlilegur frumuvöxtur sem veldur því að separ myndast. Áætlað er að þriðjungur einstaklinga eldri en 50 ára sé með slíka sepa. Sumir sepanna geta þróast yfir í krabbamein en það getur tekið mörg ár. Ef slíkir separ uppgötvast í millitíðinni með skimun er hægt að fjarlægja þá áður en þeir verða að krabbameini.
Markmið skimunarinnar
Markmið skipulegrar skimunar fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi eru annars vegar að fækka þeim sem deyja af völdum sjúkdómsins með því að finna krabbamein á frumstigum þannig að lækning sé frekar möguleg og hins vegar að fækka þeim sem greinast með þessa gerð krabbameina með því að finna og fjarlægja forstig sjúkdómsins (sepa) áður en þau þróast yfir í krabbamein.
Lengi stefnt að skipulegri skimun hérlendis
Ekki er skimað skipulega fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi á Íslandi en það er gert á hinum Norðurlöndunum og í flestum Evrópuríkjum. Um langt árabil hefur þó verið unnið að undirbúningi og áætlanir gerðar um slíkar skimanir hérlendis en þær hafa enn ekki komist til framkvæmda. Árið 2001 gaf landlæknir út leiðbeiningar um skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi og árið 2020 lagði fagráð um skimanir til að skimun fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi myndi hefjast sem fyrst og að einstaklingum á aldrinum 50-74 ára yrði boðin þátttaka.
Á meðan engin skipulögð skimun er í boði ráðleggur Krabbameinsfélagið fólki að leita til læknis um fimmtugt og spyrjast fyrir um þessi mál. Töluvert margir eru meðvitaðir um það og óska þannig eftir því við heimilislækni eða meltingarlækni að leitað sé að vísbendingum um krabbamein í ristli og endaþarmi.
Fyrir samfélagið í heild sinni væri þó mun meiri ávinningur af skipulagðri skimun þar sem öllu fólki á ákveðnu aldursbili er boðið til skimunar. Þá er viðhaft samhæft vinnulag og skráning, auk þess sem það tryggir mun meiri jöfnuð hvað varðar aðgengi að skimun.
Ávinningur og áhætta
Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á gagnsemi skimunar fyrir krabbameinum í ristli og endaþarmi, bæði hvað varðar að fækka nýjum tilfellum sjúkdómsins og draga úr dauðsföllum af völdum hans. Mikilvægt er þó að fólk átti sig á að skimanir eru aldrei með fullkomið næmi (e. sensitivity) eða sértæki (e. specificity). Það þýðir annars vegar að skimun getur misst af krabbameini og gefið svonefnda falska neikvæða niðurstöðu. Hins vegar getur niðurstaðan verið fölsk jákvæð, þ.e.a.s. að grunur vaknar um krabbamein hjá einstaklingum sem í raun eru heilbrigðir og þurfa þá að gangast undir frekari rannsóknir og meðferð (oft kallað ofgreiningar og oflækningar).