Ráðleggingar um mataræði sem getur dregið úr aukaverkunum
Það er algengt að veikindi og/eða meðferð hafi áhrif á mataræðið. Hér má finna bjargráð sem reynst hafa vel við ýmsum næringartengdum vandamálum, svo sem þreytu, lystarleysi og ógleði.
Hollt mataræði ásamt öðrum heilbrigðum lífsvenjum skiptir máli þegar tekist er á við krabbamein. En þreyta, ógleði og aðrir fylgikvillar krabbameins og/eða meðferðar geta haft áhrif á mataræðið, sem getur valdið auka álagi og áhyggjum. Það er mikilvægt að reyna að láta mataræðið hressa, en ekki stressa. Vonin er sú að ráðin hér að neðan geti aðstoðað við það.
Á meðan á krabbameinsmeðferð stendur er algengt að breyta þurfi matarvenjum vegna fylgikvilla krabbameins og/eða meðferðar. Hér má finna ráð sem reynst hafa vel við ýmsum algengum vandamálum. Þessi ráð ættu að vera viðbót við ráðleggingar þíns læknis, hjúkrunarfræðings, næringarfræðings eða annars fagfólks sem þekkir þína sögu, en koma ekki í staðinn fyrir þau.
Almennar ráðleggingar um mataræði eiga við eftir greiningu krabbameins, hjá þeim sem geta fylgt þeim. Heilsusamlegt mataræði samanstendur af lítið unnum mat, svo sem grænmeti, baunum og linsubaunum, ávöxtum og berjum, hnetum og fræjum, heilkornavörum, fiski bæði feitum og mögrum, góðum fitugjafa, mjólkurvörum og kjöti í hófi og vatni til drykkjar. Æskilegt er að takmarka neyslu á mikið unnum, söltum og sykruðum matvörum, svo sem gosi, sælgæti, óhollum skyndibita og unnum kjötvörum.
Ekki hafa áhyggjur þó þú eigir erfitt með að fylgja þessum leiðbeiningum. Fæstir fylgja ráðleggingum 100% og það þarf heldur ekki. Gott ráð er að einbeita sér að því sem við viljum borða og gerir okkur gott, í stað þess að einblína á það sem við viljum forðast eða sleppa. Nú er tíminn til að vera umburðarlynd/ur og bera virðingu fyrir okkur sjálfum og matnum okkar. Hugsa hlýlega til okkar og matarins, til dæmis með setningunum á borð við „Ég er að næra líkamann minn“ og „Þetta gerir mér gott“.
Á meðan á krabbameinsmeðferð stendur er algengt að breyta þurfi matarvenjum vegna fylgikvilla krabbameins og/eða meðferðar. Hér fyrir neðan má finna bjargráð sem reynst hafa vel við ýmsum algengum vandamálum.
Þreyta (fatigue) er algengur fylgikvilli krabbameina og krabbameinsmeðferða og getur staðið yfir lengi eftir lok meðferðar. Vegna þreytu getur verið erfitt að versla í matinn, elda, borða og ganga frá eftir matinn. Eins getur þreyta orðið til þess að ánægjan af því að borða með öðru fólki minnkar.
Það er þó mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að nærast vel þrátt fyrir þreytu. Hér koma ráð sem vert væri að prófa:
- Borðaðu mat sem þér finnst góður, lystugur og áhugaverður. Borðaðu uppáhalds matinn þinn oft, reyndu að hlakka til að borða. Notaðu fallegan borðbúnað.
- Ekki sleppa máltíð þó þú sért þreytt/ur, reyndu að fá þér eitthvað. Gott er að eiga til heilsusamlegt snarl sem auðvelt er að grípa í, til dæmis þurrkaða ávexti, hnetur, osta og heilkorna kex.
- Á þeim tíma dags sem orkan er mest getur verið gott að útbúa mat sem þú ætlar að borða síðar um daginn þegar þreytan er meiri. Til dæmis er hægt að smyrja samloku, þvo og skera niður ávexti, þvo ber og setja í fallega skál, útbúa hristing (smoothie/boost), eða annað sem hægt er að grípa. Mundu að geyma matinn í ísskáp eða á annan hátt þannig að hann skemmist ekki.
- Þegar þú finnur að orkan er mikil getur verið gott að elda stóra skammta af mat og frysta í hæfilegum skömmtum til að grípa í síðar.
- Handhægar máltíðir og matvæli sem auðvelt er að útbúa til neyslu geta hentað, til dæmis þurrkaður matur og máltíðir úr frysti eða dós. Veldu vörur með Skráargatinu þegar hægt er.
- Drekktu nægan vökva. Vatn er besti svaladrykkurinn en ef það er erfitt að nærast nóg vegna þreytu er gott að fá orku úr drykkjum, til dæmis hreinum ávaxtasöfum og hristingum (smoothie/boost).
- Hreyfing getur aukið matarlyst og dregið úr þreytu.
- Reyndu að ná góðum nætursvefni. Forðastu koffín seinni part dags þar sem það getur truflað svefn. Það getur reynst vel að drekka vel fyrri part dags og forðast að drekka mikinn vökva seint að kvöldi til að þurfa síður að pissa að nóttu til. Hafragrautur, flóuð mjólk, kamillute eða önnur jurtate geta aukið syfju á kvöldin.
- Einfaldaðu innkaupin eins og hægt er. Verslaðu í vefverslun matvörubúða og fáðu heimsent eða sæktu í verslun. Verslaðu á tímum þegar lítið er að gera í búðinni og vertu með innkaupalista til að flýta fyrir þér. Nýttu þér heimsendingarþjónustu veitingastaða.
- Láttu töfrasprota, matvinnsluvél, blandara, hrærivél og önnur raftæki gera sem mest við eldamennsku og undirbúning máltíða.
- Notaðu borðbúnað, skurðarbretti, potta, pönnur og ofnföt sem mega fara í uppþvottavél.
- Sittu eins og hægt er, til dæmis þegar þú skerð niður eða skrælir grænmeti og setur í uppþvottavélina.
- Blóðleysi getur aukið þreytu. Blóðleysi getur stafað af breytingum á beinmerg vegna krabbameins og/eða meðferðar, járnskorts og/eða B12-vítamínskorts. Ef grunur leikur á blóðleysi ætti að ráðfæra sig við lækni eða hjúkrunarfræðing. Járnrík matvæli sem geta verið hluti af hollu og fjölbreyttu mataræði flestra eru meðal annars dökk grænt grænmeti (t.d. spergikál og spínat), heilkornavörur, hnetur og fræ, baunir og kjöt.
Nú er tíminn til að þiggja aðstoð fjölskyldu og vina, meðal annars við innkaup, eldamennsku, uppvask og frágang.
Helstu heimildir:
Lystarleysi, þyngdartap og vannæring eru algengir fylgikvillar krabbameina og krabbameinsmeðferða. Það er þó mikilvægt að reyna eftir fremsta megni að nærast vel. Ef það gengur illa er mikilvægt að ræða við lækni eða næringarfræðing til að fyrirbyggja alvarleg vandamál tengd næringu. Mögulega gæti verið þörf á viðbótarnæringu eða öðrum einstaklingsbundnum leiðum. Hér koma almenn ráð sem vert væri að prófa:
- Borðaðu oft en lítið í einu í stað stórra máltíða. Stórir skammtar geta dregið úr matarlyst.
- Bættu við máltíð á tíma þegar þú ert ekki vanur/vön að borða, til dæmis fyrir svefninn.
- Borðaðu próteinríka fæðu í hverri máltíð, mörgum reynist vel að borða hana í byrjun máltíðar þegar matarlystin er mest. Sem dæmi um próteinríka fæðu má nefna baunir, fisk, kjúkling, kjöt, mjólkurvörur og egg.
- Borðaðu stærstu máltíðina þegar þú hefur mesta lyst og er mest svangur/svöng, hvort sem það er að morgni, hádegi eða kvöldi til.
- Borðaðu mat sem þér finnst góður, lystugur og áhugaverður. Borðaðu uppáhalds matinn þinn oft, reyndu að hlakka til að borða. Gerðu matinn spennandi með því að prófa ný hráefni eða nýjar uppskriftir, áhugaverð krydd eða panta frá veitingastöðum.
- Notaðu fallegan borðbúnað og berðu matinn huggulega fram. Reyndu að hafa andrúmsloftið afslappað og ánægjulegt þegar þú borðar. Það getur aukið matarlyst að borða með fólki sem þér líður vel með.
- Hafðu ávallt snarl og drykki við höndina til að grípa í þegar matarlystin er mest.
- Taktu með þér hentugt snarl þegar þú ferð að heiman, til dæmis hnetur, banana, þurrkaða ávexti og orkustangir.
- Drekktu vökva milli máltíða frekar en með máltíðum, því sumir verða fyrr saddir drekki þeir með máltíðum. Passaðu samt að drekka nóg af vökva yfir daginn - jafnvel þegar matarlystin er lítil eða engin.
- Það getur haft lystaukandi áhrif að drekka lítið glas af ávaxtasafa um 20 mínútum fyrir máltíð.
- Drekktu orku- og próteinríka drykki svo sem boost/smoothie og næringardrykki.
- Gott er að fara í gönguferð eða gera léttar æfingar fyrir máltíðir til að auka matarlyst.
Matur sem vert væri að prófa:
- Prótein- og orkurík fæða: Baunir, hummus, fiskur (bæði feitur og magur), kjúklingur, kjöt, mjólkurvörur og egg. Feitar mjólkurafurðir og feitir ostar veita mikla orku.
- Orkurík fæða úr jurtaríkinu: Avókadó, bananar, hnetur, hnetusmjör, möndlur, þurrkaðir ávextir.
- Orkuríkir drykkir: Ávaxtasafar, mjólk og mjólkurdrykkir, boost/smoothie, næringardrykkir.
- Til að orkubæta mat má bæta við olíum, rjóma og smjöri. Nota sósur og fetaost með mat.
- Sumir hafa frekar lyst á mjúkum og/eða köldum mat, svo sem köldum mjólkurvörum, boost/smoothie, rjómaís, mjólkurhristingi, frosnum ávöxtum og berjum. Stundum hjálpar að breyta áferð matarins, til dæmis að búa til ávaxta-mjólkurhristing í stað þess að borða ávöxt beint. Hér má finna hugmyndir, á ensku, að mjúkum mat.
- Súkkulaði, marsípan, rjómaís og eftirréttir geta hentað sé markmiðið að takast á við þyngdartap. Þegar tekist er á við lystarleysi, þyngdartap eða vannæringu þarf stundum að borða mat sem almennt telst ekki til hollustu til að mæta þörf fyrir orku. Þá er um að gera að muna eftir því þegar tímabilið er liðið hjá að snúa sér að hollari kostum.
Helstu heimildir:
- Gode råd ved nedsat appetit og vægttab á heimasíðu danska krabbameinsfélagsins.
- Loss of Appetite, Weight Loss, and Undernutrition á heimasíðu American Institute for Cancer Research.
- Tips for putting on weight á heimasíðu Cancer Research UK.
- Tips to help with loss of appetite á heimasíðu Cancer Research UK.
Þyngdaraukning í tengslum við krabbameinsmeðferð er algeng, sérstaklega í tengslum við ákveðin krabbamein og meðferðir. Má þar nefna hormónameðferð vegna brjóstakrabbameins og lyfjameðferða sem koma af stað tíðahvörfum. Eins geta breytingar á hreyfivenjum og/eða mataræði og aukin matarlyst vegna sterameðferða haft áhrif. Þyngdaraukning getur einnig verið tilkomin af völdum vökvasöfnunar/bjúgs, lesa má um það hér að neðan.
Nokkur ráð til að sporna við þyngdaraukningu:
- Grænmeti, ávextir, heilkornavörur, baunir og önnur trefjarík fæða mettar vel og veitir góða næringu án þess að vera mjög orkurík. Borðaðu hollan og fjölbreyttan mat í hæfilegu magni.
- Veittu merkjum líkamans um svengd og seddu eftirtekt. Borðaðu þegar þú finnur fyrir svengd og ekki finnast þú þurfa að klára af disknum ef þú finnur fyrir seddu áður en skammturinn er búinn.
- Veittu því sem þú borðar eftirtekt, borðaðu með athygli og reyndu að njóta matarins. Forðastu að horfa á sjónvarpið eða lesa blöðin á meðan þú borðar.
- Borðaðu mat sem þér finnst góður og svalar bæði líkamlegri og andlegri þörf fyrir næringu.
- Fáðu orkuna frekar úr mat en drykk. Drekktu frekar vatn eða te heldur en ávaxtasafa eða gos, sem innihalda orku. Forðastu áfengi.
- Vertu vakandi fyrir skammtastærðum. Sumum reynist vel að nota minni diska, skálar og hnífapör.
- Hreyfing, góður svefn og heilbrigðar lífsvenjur hjálpa til við þyngdarstjórnun. Á Heilsuveru má finna hollari hugmyndir að mat.
Helstu heimildir:
- Gode råd ved vægtstigning á heimasíðu danska krabbameinsfélagsins.
- Be a healthy weight og Weight gain á heimasíðu American Institute for Cancer Research.
Algeng krabbameinslyf geta valdið vökvasöfnun og bjúgmyndun.
- Drekktu vel af vatni, nema þér hafi verið ráðlagt að takmarka vökva vegna meðferðarinnar.
- Borðaðu fæðu sem inniheldur mikinn vökva og lítið salt, svo sem ávexti og grænmeti og lítið saltaðar súpur.
- Takmarkaðu neyslu á saltríkum mat, svo sem osti, unnum kjötvörum og öðru saltríku áleggi, frönskum kartöflum, skyndibita, tilbúnum súpum og sósum. Súputeningar, sojasósur og aðrar tilbúnar sósur og sumar kryddblöndur innihalda mikið salt.
- Í staðinn fyrir að salta mat getur þú bragðbætt matinn með ferskum eða þurrkuðum kryddjurtum, chili, hvítlauk, engifer eða sítrónu.
- Hreyfing er af hinu góða. Eins getur hjálpað að hafa hátt undir fótum í hvíld.
Embætti landlæknis heldur úti vefsíðunni Skoðaðu saltið og á Heilsuveru eru einfaldar leiðir að minni saltneyslu .
Helstu heimildir:
Ógleði er algengur fylgikvilli krabbameinsmeðferða og þess álags sem þeim fylgir. Oft fylgja uppköst og þeim er gert skil í næsta kafla. Æskilegt er að ræða við fagfólk um ógleðilyf. Hér koma almenn ráð við ógleði:
- Borðaðu oft en lítið í einu í stað stórra máltíða.
- Sumum finnst gott að narta í eitthvað áður en farið er á fætur og hafa til dæmis vatn, sódavatn og kex á náttborðinu.
- Borðaðu kaldan mat frekar en heitan, þar sem lyktin af heitum mat getur aukið á ógleði.
- Borðaðu sitjandi og ekki leggjast útaf fyrr en um klukkustund eftir að þú borðar. Hvíldu þig frekar sitjandi í góðum stól sem hallast vel aftur.
- Drekktu vel milli máltíða í stað þess að drekka mikið með máltíð. Hafðu drykkina kalda eða við stofuhita og drekktu með röri.
- Hreinsaðu munninn fyrir og eftir máltíðir. Sumum finnst gott að sjúga brjóstsykur með piparmintu- eða sítrónubragði þegar ógleðin hellist yfir.
- Taktu eftir því hvaða matur, lykt eða athafnir auka á ógleðina og hvenær dags hún er mest. Reyndu að forðast þær aðstæður sem auka á ógleðina. Til dæmis gæti þurft að forðast ákveðinn mat eða krydd, opna alla glugga og lofta vel þegar verið er að elda mat, fá aðra til að elda og kæla strax heitan mat sem er í afgang. Mörgum finnst betra að forðast mat sem er feitur/fitugur, kryddaður, mjög sætur og sem gefur frá sér sterka lykt.
Matur sem vert væri að prófa:
- Ristað brauð, hrökkbrauð, kruður/tvíbökur, saltkringlur, kex
- Jógúrt
- Niðursoðnir ávextir
- Kjúklingur (húðlaus) bakaður í ofni
- Haframjöl, hafragrautur
- Súpur
- Piparminta, engifer og sítróna reynist sumum vel, til dæmis í te.
Helstu heimildir:
Uppköst geta verið fylgikvilli krabbameinsmeðferða og geta komið í kjölfar ógleði eða án þess að fólk finni fyrir ógleði. Mikilvægt er að láta fagfólk vita ef uppköst eru mikil og erfitt reynist að halda niðri vökva. Við uppköst tapast bæði vökvi og sölt/steinefni úr líkamanum og því er mikilvægt að koma í veg fyrir ofþornun. Ráð sem vert væri að prófa:
- Ekki borða eða drekka þar til þú hefur jafnað þig eftir uppköstin.
- Fyrsta skref er svo að reyna að koma niður sopa og sopa af tærum vökvum. Gott er að þeir innihaldi smá sykur og sölt. Sumum reynist vel að drekka vatnsblandaða íþróttadrykki, epla- eða trönuberjasafa (hægt að þynna með vatni), léttsykrað te, tærar bollasúpur eða goslítið sódavatn. Æskilegt er að sleppa appelsínusafa. Kolsýrðir drykkir geta aukið líkur á uppköstum.
- Drekktu meira eftir því sem líðanin leyfir.
- Næsta skref er svo að reyna að koma niður smáum skömmtum af mat sem þú hefur lyst á. Sumum finnst gott að borða mjúka fæðu t.d. búðing, öðrum finnst gott að borða hlutlausa fæðu t.d. ristað brauð, tvíbökur, hrísgrjón eða kartöflur. Bættu smám saman inn fjölbreyttari fæðutegundum. Hér má finna hugmyndir, á ensku, að mjúkum mat.
- Stundum er gott að forðast mjólk, sítrus ávexti og safa úr þeim, kryddaðan feitan mat og kaffi. Alltaf skal forðast áfengi.
- Fáðu leiðbeiningar um hvort þú þurfir að taka lyfin þín aftur ef þú hefur kastað upp stuttu eftir inntöku.
Helstu heimildir:
Niðurgangur getur verið fylgikvilli krabbameinsmeðferða. Mikilvægt er að láta fagfólk vita ef niðurgangur er mikill því þá er hætta á vökvaskorti, næringarskorti og öðrum vandamálum. Fagfólk getur metið hvort þörf sé á lyfjum til meðhöndlunar og hvort mögulegt sé að niðurgangurinn sé af völdum tímabundins laktósaóþols eða annars sem meðhöndla þurfi sérstaklega. Hér koma almenn ráð við niðurgangi:
- Reyndu að drekka nóg, sumir miða við átta glös á hverjum degi. Vatn er besti svaladrykkurinn en aðrir góðir drykkir eru m.a. útþynntur safi, koffínlaust kaffi og te.
- Það gæti verið þægilegra að drekka vökva við stofuhita en ískalda drykki.
- Borðaðu litla skammta af mat oft yfir daginn í stað nokkurra stórra máltíða. Mundu að tyggja matinn vel.
Matur sem vert væri að prófa:
- Hrísgrjón, núðlur
- Harðsoðin egg
- Bananar
- Grænmeti (soðið, bakað í ofni og/eða maukað)
- Eplamús, kartöflustappa
- Hrökkbrauð, kex, ristað brauð
- Kjúklingur eða kalkúnn án skinns
- Roðlaus fiskur
- Sýrðar mjólkurvörur, jógúrt, kefír
- Saltríkur matur
Matur sem mögulega gæti verið æskilegt að sleppa:
- Brauð með miklum kornum
- Hrátt grænmeti og ávextir í miklu magni
- Mjög trefjaríkt grænmeti eins og spergilkál (brokkolí), blómkál, kál, maís, baunir, ertur, laukur í miklu magi
- Sterk krydd
- Feitur, reyktur og steiktur matur
- Smjör, rjómi, rjómaostur, olía og majónes
- Áfengir drykkir og drykkir sem innihalda koffín
- Gervisæta
Helstu heimildir:
Hægðatregða getur verið fylgikvilli sumra krabbameinsmeðferða og notkunar vissra verkjalyfja. Hún getur einnig verið merki um ónóga neyslu á trefjum eða vökva eða of mikla kyrrsetu. Eins og með annað er mikilvægt að láta fagfólk vita ef hægðatregða er mikil og viðvarandi. Hér koma almenn ráð við hægðatregðu:
- Reyndu að drekka nóg, allavega átta glös á hverjum degi. Vatn er besti svaladrykurinn en aðrir góðir drykkir eru m.a. sveskjusafi og heitir drykkir svo sem koffínlaust te og volgt vatn með sítrónu.
- Borðaðu trefjaríka fæðu, svo sem grænmeti, ávexti bæði ferska og þurrkaða (til dæmis sveskjur), heilkornavörur, baunir, maís og ertur. Til að trefjarnar geri sitt gagn skiptir miklu máli að drekka mikinn vökva.
- Spergilkál (brokkolí), blómkál, kál, baunir og laukur eru trefjarík en geta valdið loftmyndun, því getur þessi fæða hentað illa ef þú ert með uppþembu og óþægindi vegna loftmyndunar. Það sama getur átt við um gúrku og kolsýrða drykki.
- Borðaðu trefjaríkan morgunverð (til dæmis hafragraut með ferskum eða þurrkuðum ávöxtum) og drekktu heitan drykk með, svo sem koffínlaust te eða volgt vatn með sítrónu.
- Hreyfðu þig eins mikið og þú getur, til dæmis með göngutúrum og léttum æfingum.
- Mögulega ráðleggur fagfólk trefjar sem fæðubótarefni eða lyf við hægðatregðu. Með slíkum meðferðum skiptir einnig miklu máli að drekka mikinn vökva.
Helstu heimildir:
Það að verða saddur/södd af litlu magni af mat getur verið afleiðing krabbameinsmeðferða, skurðaðgerða á efri hluta kviðarhols og vegna annarra ástæðna. Það er mikilvægt að borða nóg til að stuðla að virkni og viðhaldi líkamans og flýta fyrir bata og uppbyggingu eftir meðferðir eða aðgerðir. Hér koma almenn ráð:
- Borðaðu litla skammta af mat oft yfir daginn.
- Hafðu heilsusamlegt og næringarríkt snarl við hendina á milli mála, til dæmis þurrkaða ávexti, hnetur, banana, osta og heilkorna kex.
- Borðaðu orkuríka og næringarríka fæðu í hverri máltíð. Dæmi um orkuríka fæðu: Baunir, hummus, fiskur, kjúklingur, kjöt, mjólkurvörur, egg, avókadó, bananar, hnetur, hnetusmjör, möndlur, þurrkaðir ávextir. Til að orkubæta mat má bæta við olíum, rjóma og smjöri og nota sóstur og fetaost.
- Forðastu steikan og fitugan mat og mat sem veldur uppþembu.
- Drekktu nægan vökva milli máltíða frekar en með máltíðum. Orkuríkir drykkir eru t.d. ávaxtasafar, mjólk og mjólkurdrykkir, boost/smotthie.
- Hvíldu þig sitjandi eftir máltíðir.
- Í vissum tilfellum getur fagfólk mælt með orku- og næringarviðbót, til dæmis næringardrykkjum.
Helstu heimildir:
Krabbameinslyf geta valdið breytingum á bragð- og lyktarskyni. Sumir fara að finna biturt eða málmkennt bragð. Það er mjög einstaklingsbundið hvort og hvernig breytingar á bragð- og lyktarskyni lýsa sér og því eru leiðir til að bregðast við þeim margar og ólíkar. Breytingarnar geta staðið stutt yfir eða verið viðvarandi meðan á meðferð stendur en í langflestum tilfellum verður bragð- og lyktarskyn eðlilegt aftur eftir að meðferð lýkur, en það gæti tekið nokkurn tíma, jafnvel nokkra mánuði. Hér koma almenn ráð sem mætti prófa:
- Veldu mat sem þér finnst síst vont bragð af. Prófaðu nýjan mat. Sumum finnst gott að borða bragðmikinn mat, krydda hann vel og nota kryddjurtir. Athugaðu að salta í hófi.
- Sumum finnst gott að borða ferskan og kaldan mat svo sem frosna melónubita og vínber.
- Sumum finnst gott að borða súran mat og drykk svo sem appelsínur og vatn með sítrónu.
- Sumum finnst gott að setja örlítinn sykur út á mat.
- Borðaðu matinn kaldan eða við stofuhita. Það er minni lykt af köldum mat en heitum.
- Borðaðu litla skammta af mat oft yfir daginn frekar en stórar máltíðir.
- Ef þér finnst vera málmbragð af matnum getur þú prófað að borða með plasthnífapörum og elda í pottum og pönnum úr gleri.
- Skolaðu munninn með vatni, tei, engiferöli eða öðru fyrir og eftir máltíðir. Burstaðu tennur og tungu reglulega. Sumum finnst gott að sjúga ísmola fyrir máltíðir og jafnvel milli matarbita til að deyfa bragðlaukana og hreinsa.
- Ef kjöt bragðast illa mætti prófa ólík krydd eða marineringar. Aðrir góðir próteingjafar eru kjúklingur, fiskur, baunir, egg og mjólkurvörur.
Helstu heimildir:
Mjólkursykurs- eða laktósaóþol (mjólkursykur = laktósi) getur í sumum tilfellum verið afleiðing krabbameinsmeðferða, þó ekki sé vitað hve algengt það er. Þá getur það verið tímabundið ástand sem líður hjá. Helstu einkenni eru niðurgangur, loftgangur og kviðverkir. Ef grunur leikur á óþoli fyrir mjólkursykri er best að leita ráða hjá fagfólki sem getur ráðlagt hvað æskilegt sé að gera.
Athugið að mjólkursykursóþol er ekki það sama og mjólkurofnæmi. Ráðin hér á eftir miðast við mjólkursykursóþol (laktósaóþol).
- Stundum þolast venjulegar mjólkurvörur í litlu magni, en það getur verið mjög einstaklingsbundið.
- Lestu innihaldslýsingar á matvörum til að athuga hvort þær innihaldi mjólk eða mjólkursykur.
- Þú getur notað laktósalausa mjólk og laktósalausar mjólkurtegundir.
- Þú getur líka valið kalkbættar mjólkurlausar drykkjartegundir, til dæmis soja-, hafra-, möndlu- eða hrísdrykk.
- Brauðostur og mygluostar, t.d. camembert, gráðostur, brie og þess háttar, eru laktósasnauðar mjólkurvörur. Veldu osta þar sem merking um næringargildi gefur upp að osturinn innihaldi ekki kolvetni. Forðastu ferskar ostategundir eins og rjómaost, kotasælu og fetaost. Þó er oft að finna laktósalausar tegundir af slíkum ostum í verslunum og þær ættu að vera í lagi.
- Sumir þola að nota smjör og smjörva á meðan aðrir velja frekar laktósalaust smjör eða laktósalausan smjörva eða mjólkurlausar tegundir.
Helstu heimildir:
Vanlíðan í tengslum við krabbamein og meðferðir getur valdið því að fólk fái óbeit á tilteknum mat.
- Oft líður þetta hjá en á meðan er mikilvægt að einbeita sér að því að borða heilsusamlegan og fjölbreyttan mat sem veitir ánægju.
- Gott ráð er að forðast að borða mat sem manni finnst sérlega góður á tímum þegar miklar líkur eru á vanlíðan, til að minnka líkurnar á því að maður fái óbeit á þeim mat.
Helstu heimildir:
Særindi í munni, tungu og hálsi geti verið fylgikvillar af krabbameinsmeðferð eða komið til af öðrum ástæðum. Hafið samband við lækni til að skera úr um hvort særindin séu vegna sýkingar eða tannskemmda. Ef særindi eru fylgikvillar meðferða er algengt að þau hverfi þegar meðferð lýkur.
- Borðaðu mat sem auðvelt er að tyggja og kyngja. Veldu mat með mjúkri áferð, til dæmis súpur, kássur, þeytinga. Eldaðu mat þar til hann er mjúkur og meyr og skerðu í smáa bita. Maukaðu eða stappaðu mat. Hér má finna hugmyndir, á ensku, að mjúkum mat.
- Borðaðu matinn kaldan eða við stofuhita.
- Matur sem getur hentað: Bananar, eplamauk, vatnsmelónur, niðursoðnir ávextir, kotasæla, jógúrt, ostur, kartöflustappa, hrærð egg, kaldur hafragrautur, sódavatn.
- Forðastu áfengu og sterkan mat.
- Prófaðu að drekka með röri.
- Sumum finnst gott að kæla munn og góm með klökum.
- Skolaðu munninn fyrir og eftir máltíðir með vatni. Burstaðu tennur með sérlega mjúkum tannbusta og notaðu tannþráð eftir máltíðir. Stundum þarf að forðast notkun á munnskoli með alkóhóli (hægt að sjá á umbúðum hvort þitt munnskol innihaldi alkóhól).
Helstu heimildir:
Þurrkur í munni er algengur fylgikvilla lyfjameðferða og geislameðferða á höfði og hálsi. Munnþurrkur stafar af skerðingu á flæði munnvatns og getur valdið erfiðleikum við að tyggja og kyngja mat auk þess sem hann getur haft áhrif á það hvernig matur bragðast. Ef munnþurrkur er mikill og veldur miklum vandræðum geta læknar veitt ítarlegri ráð.
- Til að örva munnvatnsframleiðslu mætti sjúga ísmola, sykurlausan brjóstsykur eða frostpinna eða frosin vínber. Einnig gætu súrir drykkir, til dæmis sítrónuvatn, örvað munnvatnsframleiðslu.
- Veldu mat sem auðvelt er að kyngja. Prófaðu að bleyta upp í mat með vökva, til dæmis vatni, mjólk, soði eða þunnum sósum.
- Forðastu saltan mat og áfengi.
- Prófaðu að drekka með röri.
- Góð munnhirða er mikilvæg, eins að halda vörum rökum (með góðum varasalva) og að forðast reykingar.
Helstu heimildir:
Erfiðleikar við kyngingu geta gert vart við sig, sérstaklega við meðferð á krabbameinum í höfði og hálsi. Mikilvægt er að skera úr um það að kyngingarerfiðleikar séu ekki vegna annarra ástæðna. Mögulega er þörf á kyngingarmati til að finna út hvaða matar og drykkja öruggt er að neyta. Eins getur fagfólk veitt leiðbeiningar um hvernig staðsetja skuli mat í munni, tækni við að kyngja og hvernig aðlaga skuli mataræðið til að minnka líkur á vandamálum svo sem hægðatregðu eða niðurgangi.
- Borðaðu litla skammta af mat oft yfir daginn frekar en stórar máltíðir.
- Maukaðu eða stappaðu mat og þynntu hann með vökva, til dæmis vatni, mjólk, soði eða þunnum sósum.
- Reyndu að drekka nóg, allavega átta glös á hverjum degi. Það getur verið auðveldara að kyngja vökva við stofuhita en mjög köldum eða heitum drykkjum. Það getur reynst betur að drekka milli máltíða en með máltíð.
Helstu heimildir:
Vökvaskortur og ofþornun getur gert vart við sig vegna uppkasta, niðurgangs, mikillar svitamyndunar, lystarleysis og annarra ástæðna og getur verið fylgikvilli krabbameina eða krabbameinsmeðferða. Mikilvægt er að koma í veg fyrir ofþornun og leiðrétta vökvaskort. Mikilvægt er að leita til fagfólks sem getur leiðbeint þér því afleiðingar ofþornunar geta verið alvarlegar. Hér koma almenn ráð:
- Drekka mikinn vökva, allavega 8-10 glös á dag.
- Vökvinn getur verið vatn, koffínlaust te og koffínlaust kaffi, ávaxtasafar, mjólkurdrykkir og saltlausar súpur. Athugið að koffín og áfengi getur valdið því að meiri vökvi tapast úr líkamanum og best er því að forðast slíka drykki.
- Stundum er þörf á íþróttadrykkjum eða sérstökum saltblöndum sem leiðrétta vökvaskort. Læknar geta einnig metið hvort þörf sé á lyfjum til að leiðrétta uppköst eða önnur einkenni og hvort þörf sé á vökva í æð.
Helstu heimildir: