Beint í efni

Mat­ar­æði Ís­lend­inga og krabba­meins­áhætta

Niðurstöður úr landskönnun á mataræði Íslendinga voru kynntar árið 2022 og sýndu að ýmsar breytingar höfðu átt sér stað frá því áratug áður. Sumar breytingarnar voru jákvæðar en annað gæti verið betra.

Hér eru upptaldar nokkrar helstu mataræðisráðleggingar til að draga úr líkum á krabbameinum og fjallað um þær niðurstöður könnunarinnar sem við eiga.

Borðum grænmeti, ávexti og heilkornavörur daglega

Því miður sýna niðurstöður könnunarinnar að grænmetisneysla hefur staðið í stað auk þess sem dregið hefur úr ávaxta- og berjaneyslu. Meðalneysla er langt frá ráðleggingum og náðu einungis 2% þátttakenda ráðlögðum dagskammti; 500 g af grænmeti og ávöxtum daglega. Þá sýndi könnunin að landsmenn mættu gjarnan borða meira af heilkornavörum. Mælt er með a.m.k tveim skömmtum af heilkornavörum á dag eða um 70 g en um fjórðungur þátttakenda náði því marki.

Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem borða ríkulega af grænmeti, ávöxtum og heilkornum fá síður ákveðnar tegundir krabbameina auk þess sem mikil neysla þessara matvæla spornar gegn yfirþyngd og þyngdaraukningu sem tengist auknum líkum á mörgum tegundum krabbameina. Óhætt er því að hvetja flesta til að stefna að því að auka verulega neyslu þessara matvæla.

Takmörkum neyslu á rauðu kjöti og forðumst unnar kjötvörur

Jákvætt er að neysla landsmanna á rauðu kjöti og unnum kjötvörum hefur farið minnkandi. Enn mætti þó draga meira úr henni þar sem 60% þátttakenda neyttu meira en ráðlagt er af kjötvörum. Gott væri að velja oftar í staðinn fisk, baunir, egg og mjólkurvörur sem prótíngjafa en könnunin sýndi að hlutfall þeirra sem neyttu grænmetisrétta og fiskrétta sem aðalrétt stóð í stað. Einungis um þriðjungur náði ráðlögðu markmiði um 2-3 fiskmáltíðir á viku og var sér í lagi ábótavant meðal ungra kvenna.

Mikil neysla á rauðu kjöti, sér í lagi unnum kjötvörum, tengist auknum líkum á krabbameini í ristli og þyngdaraukningu og því ráðlegt að takmarka hana.

Forðumst sykraða drykki

Neysla landsmanna á sykruðum gos- og svaladrykkjum er á niðurleið skv. niðurstöðum könnunarinnar. Því má fagna að ríflega helmingur landsmanna segist aldrei drekka sykraða drykki.

Rannsóknir hafa sýnt fram á sterk tengsl á milli neyslu sykraðra drykkja og yfirþyngdar, þyngdaraukningar og offitu hjá bæði börnum og fullorðnum, sérstaklega þegar þeirra er neytt reglulega eða í stórum skömmtum. Yfirþyngd tengist auknum líkum á ýmsum tegundum krabbameina og því er sérstaklega ráðlagt að drekka ekki sykraða drykki til að minnka líkur á krabbameinum

Takmörkum neyslu á unnum matvörum sem innihalda mikinn sykur, salt eða mettaða fitu

Fituneysla landsmanna og neysla á mettaðri fitu hefur aukist og er nú við efri mörk þegar horft er til hlutfalls orkuinntöku. Jákvætt er að almennt virðist neysla á viðbættum sykri vera á niðurleið þegar horft er til hlutfalls af heildarorku þó neysla á sælgæti, ís, sætabrauði, kexi og kökum haldist óbreytt frá fyrri könnun.

Sýnt hefur verið fram á að mikið unnin matvæli og fæði sem inniheldur hátt hlutfall af fitu, kolvetnum og viðbættum sykri (t.d. skyndibitamatur) auka líkur á þyngdaraukningu, yfirþyngd og offitu sem eykur líkur á mörgum tegundum krabbameina. Því er eindregið ráðlagt að takmarka neyslu á slíkri fæðu.

Drekkum ekki áfengi eða takmörkum neyslu þess

Rúmlega helmingur landsmanna sagðist drekka áfengi einu til þrisvar sinnum í mánuði eða aldrei og um fjórðungur sagðist drekka áfengi í hverri viku.

Áfengisdrykkja eykur líkur á mörgum tegundum krabbameina og er því forvarnandi að draga úr áfengisdrykkju eða sleppa alveg.