Olga á sterkan vinahóp: „Elska þau endalaust án skilyrða“
„Ég einangraðist mikið eftir að ég greindist með brjóstakrabbameinið 2013 og bjó í Svíþjóð. Ég vann ekki mikið í veikindunum og þar var enginn andlegur stuðningur eða tengslanet. Þó svo að ég eigi trygga vini á Íslandi, er erfitt að vera langt í burtu frá þeim þegar maður gengur í gegnum veikindi.“
Saga Olgu Steinunnar Weywadt Stefánsdóttur
„Við ákváðum því að flytja heim eftir 14 ára fjarveru til að komast nær okkar fólki og í þann stuðning sem hægt er að fá á Íslandi". Olga og Gísli, maður hennar, hafa notið starfsemi Krafts og Ljóssins eftir að þau fluttu til landsins og fundið þar stuðning sem þau höfðu ekki upplifað í Svíþjóð.
Eftir greiningu árið 2013 fór Olga í lyfjameðferð, brjóstnám og geisla. Hún endurgreindist árið 2015 og þá voru komin meinvörp í lifur, hrygg og mjöðm. Leg og eggjastokkar voru fjarlægðir, en krabbameinið er ólæknandi og er haldið niðri með hormónameðferð og inndælingu lyfja á þriggja mánaða fresti.
Daginn sem vinamyndin á þessari sýningu var tekin kom í ljós að meinið væri að stækka í lifrinni og að stíflur væru í nýrum sem kalli á aðgerð. Tveimur dögum síðar blæddi svo inn á heilann og Olga var flutt á gjörgæslu þar sem hún var í nokkra daga.
Þau hjónin eiga þrjú börn. Vegna veikindanna hafa þau þurft að gera ýmsar breytingar á lífi sínu og samtímis því að takast á við óvissu, sorg og vanlíðan hafa þau hlúð að börnunum eftir bestu getu. Og Olga telur mikilvægt að velta dauðanum fyrir sér og taka hann í sátt: „Sérstaklega þegar hann hangir svona fyrir ofan mig og andar ofan í hálsmálið á mér og fjölskyldunni. Ég sætti mig auðvitað ekki við að deyja og hræðist það á vissan hátt, en ég vil eiga góð ár framundan. Mér finnst líka mikilvægt að ræða um dauðann við lífsförunautinn og fara yfir helstu óskir manns.“
„Ég á ótrúlega sterkan vinahóp stelpna og stráka. Við höfum fylgst að síðan í leikskóla, í gegnum grunnskóla og áfram út í lífið. Þau hafa hjálpað okkur óendanlega mikið á allan hátt. Veigra sér ekki við því að taka til dæmis make-over á heilu húsi í Svíþjóð þegar við vorum að flytja restina af dótinu okkar. Þau hjálpa manni andlega, létta áhyggjum og eru til staðar. Mér hefur þótt gott að setja upp kerfi þar sem einn hefur umsjón og heldur utan um hvernig vinahópurinn kemur að hinum veika í samvinnu við hann. Vinirnir eru mínar hetjur og ég elska þau endalaust án skilyrða. “
„Það má svo sannarlega segja um tilveru okkar í dag að lífið sé breytt og verði aldrei eins. Það hefur beðið hnekki. En nú er bara að dansa í rigningunni, skapa okkur nýtt líf og lifa í núinu, einn dag í einu."
Uppfært í september 2019: Olga lést af völdum síns sjúkdóms þann 1. júlí 2019. Krabbameinsfélagið vottar aðstandendum hennar sína dýpstu samúð.