Beint í efni

Hvern­ig verð­ur þitt fram­lag að gagni?

Fræðsla og forvarnir

Fræðsla og forvarnir eru stór þáttur í starfi Krabbameinsfélagsins.

Unnið er á fjölbreyttan hátt að því að koma á framfæri margvíslegum fróðleik og upplýsingum varðandi krabbamein og hvernig hægt er að draga úr líkum á þeim. Helsta áherslan er á fræðslu um lífsvenjur sem tengjast krabbameinsáhættu og einkenni sem geta bent til krabbameins. Fræðsluefni er unnið fyrir fjölbreytta miðla félagsins auk þess sem haldin eru fræðsluerindi innanhúss og utan. Í samvinnu við aðrar deildir kemur starfsfólk einnig að námskeiðahaldi og ýmsum öðrum verkefnum sem öll hafa markmið félagsins á einn eða annan hátt að leiðarljósi.

Ráðgjöf og stuðningur

Ráðgjöf og stuðningur  við fólk sem greinist með krabbamein og aðstandendur er eitt af forgangsverkefnum Krabbameinsfélagsins. Árið 2007 var Ráðgjafarþjónusta Krabbameinsfélagsins sett á laggirnar Áður hafði félagið rekið símaráðgjöf í mörg ár.

Félagið veitir fólki með krabbamein, aðstandendum og syrgjendum endurgjaldslausa ráðgjöf og stuðning fagaðila; sálfræðinga, hjúkrunarfræðinga og félagsráðgjafa. Markmiðið er að aðstoða fólk við að ná jafnvægi í lífinu eftir þær breyttu aðstæður sem greining krabbameins veldur. Leiðirnar eru margvíslegar, viðtöl fyrir einstaklinga og fjölskyldur auk margvíslegra námskeiða af fjölbreyttu tagi.

Frá árinu 2022 hefur mjög aukin áhersla verið lögð á málefni lifenda, sem er ört stækkandi hópur, ekki síst með tilliti til langvinnra og síðbúinna aukaverkana.

Íbúðir

Krabbameinsfélagið á átta íbúðir, í göngufæri við Landspítalann, fyrir fólk utan af landi sem þarf að sækja rannsóknir og meðferð í Reykjavík. Sex íbúðanna á félagið með Rauða krossi Íslands en tvær eru í fullri eigu félagsins. Með íbúðunum býðst fólki eins konar heimili að heiman.

Rannsóknir

Hjá Rannsókna- og skráningarsetri eru stundaðar krabbameinsrannsóknir, einkum faraldsfræðilegar. Sérstök áhersla er lögð á að skilja umhverfistengdar og erfðafræðilegar orsakir krabbameina og að fylgjast með horfum sjúklinga og skilja hvaða þættir hafa áhrif á þær. Mikið samstarf er við innlenda og erlenda vísindamenn. Hjá setrinu er rekin Krabbameinsskrá Íslands, í umboði landlæknis með þjónustusamningi.

Skráning allra krabbameina á Íslandi hófst árið 1954 og fylgir skráningin alþjóðlegum stöðlum. Úrvinnsla gagna úr krabbameinsskránni miðar að því að afla þekkingar á orsökum og eðli krabbameina. Upplýsingar úr Krabbameinsskrá eru grunnurinn að velflestum krabbameinsrannsóknum á Íslandi.

Í samstarfi við Landspítalann og Sjúkrahúsið á Akureyri sinnir setrið einnig gæðaskráningu greiningar og meðferðar krabbameina á Íslandi. Með skráningunni fæst gott yfirlit yfir greiningar- og meðferðarferli sem nýtist til úrbóta og samanburðar við önnur lönd.

Upplýsingar og yfirlitsmyndir úr Krabbameins- og gæðaskrá eru aðgengilegar almenningi á heimasíðu Krabbameinsfélagsins.

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins

Vísindin varða leiðina fram á við. Vísindasjóðs Krabbameinsfélagsins var stofnaður 16. desember 2015. Tilgangur sjóðsins er að efla íslenskar rannsóknir á krabbameinum, m.a. með því að styrkja með fjárframlögum rannsóknir á orsökum krabbameina, forvörnum, meðferð og lífsgæðum sjúklinga. 

Vísindasjóður Krabbameinsfélagsins hefur frá árinu 2017 veitt 96 styrki, alls 562,4 milljónir króna, til 58 rannsókna. Úthlutað er úr sjóðnum einu sinni á ári.

Krabbameinsfélagið fjármagnar Vísindasjóð með styrkjum og gjöfum frá almenningi og fyrirtækjum og hefur sjóðurinn úthlutað styrkjum að vori til síðan árið 2017.

Sjóðurinn hefur reynst bylting í krabbameinsrannsóknum hér á landi.

Vísindasjóðurinn hefur sérstaka stjórn en henni til ráðgjafar er Vísindaráð félagsins.

Fjölbreytt miðlun

Krabbameinsfélagið nýtir fjölbreyttar leiðir til að reyna að ná til sem flestra. Efnið er margvíslegt að innihaldi og framsetningu.

Heimasíður félagsins eru: Krabbameinsfélagið, Bleikaslaufan, Mottumars, Karlaklefinn  og Styrkleikarnir

Samfélagsmiðla félagins eru:  Facebook, Instagram, Linkedln og TikTok, til að koma ýmsu efni á framfæri, ýmist undir hatti Krabbameinsfélagsins, stóru átakanna Mottumars og Bleiku slaufunnar,  Ráðgjafarþjónustu Krabbameinsfélagsins, Styrkleikanna eða Karlaklefans.

Félagið heldur einnig úti Youtube-rás og Hlaðvarpsveitu á Spotify.

Starfsemi Krabbameinsfélagsins