Um Styrkleikana
Styrkleikar Krabbameinsfélagsins eru heill sólarhringur af ævintýrum, samstöðu og samkennd. Það geta allir látið gott af sér leiða fyrir einstaklinga sem greinst hafa með krabbamein og aðstandendur þeirra.
Viðburðurinn er fjölskylduvænn og býður upp á einstaka upplifun fyrir alla, óháð aldri. Þátttakendur skiptast á að ganga með boðhlaupskefli í sólahring, sem er táknrænt fyrir að engin hvíld fæst frá krabbameini.
Styrkleikarnir er sólarhringsviðburður sem er táknrænn fyrir að það fæst engin hvíld frá krabbameini, fólk sem tekst á við krabbamein gerir það allan sólarhringinn. Viðburðurinn er opinn öllum sem vilja sýna stuðning í verki. Fjölskyldur, fyrirtæki, íþróttafélög, félagasamtök eða aðrir skrá sig sem lið og vinna saman að því að hafa fulltrúa á hreyfingu (ganga, hlaupa, sitja í kerru o.s.frv.) með boðhlaupskefli allan sólarhringinn. Þetta er ekki keppni heldur snúast Styrkleikarnir um samstöðu, samveru og samtakamátt liðanna í að styðja við, heiðra eða minnast einstaklinga sem hafa fengið krabbamein. Styrkleikarnir eru haldnir til að sýna stuðning, safna fé til rannsókna á krabbameinum og til þess að veita krabbameinsgreindum ráðgjöf og þjónustu.
Viðburðurinn er alltaf skipulagður í nærsamfélagi og undirbúinn og framkvæmdur að langmestu leyti af sjálfboðaliðum.