Erfðagjafir
Á undanförnum árum og áratugum hafa margir óskað eftir því að halda áfram að styðja við baráttuna gegn krabbameinum eftir sinn dag, með því að gefa erfðagjöf til Krabbameinsfélagsins. Erfðagjafir sýna einstakan hlýhug og velvilja í garð félagsins og vilja til að ná enn meiri árangri í baráttunni gegn krabbameinum.
Að ráðstafa erfðafé til góðgerðarfélags að lífshlaupi loknu er valkostur sem er í boði fyrir okkur öll. Þú getur arfleitt félagasamtök eins og Krabbameinsfélagið að hluta eða öllum eignum þínum og þannig haft áhrif til framtíðar.
Dæmi um erfðagjafir sem hafa borist félaginu og hafa haft mikla þýðingu eru gjafir Kristínar Björnsdóttur árið 1994 og Ingibjargar Guðjónsdóttur Johnson árið 1998 sem mörkuðu upphaf þess að styrkir til rannsókna á krabbameinum fóru af stað fyrir alvöru en Kristínu og Ingibjörgu var sérstaklega annt um krabbameinsrannsóknir. Minningarsjóðir sem félagið stofnaði í þeirra nafni urðu grunnurinn að Vísindasjóði Krabbameinsfélagsins. Þannig lifir gjöf þeirra áfram og vex.
Einnig má nefna gjöf Láru Vigfúsdóttur en gjöf hennar gerði félaginu kleift að bjóða konum fyrstu skimun án endurgjalds árið 2020. Þannig njóta þúsundir kvenna um allt land góðs af gjöf Láru.
Fjölmörg dæmi eru um önnur framfaraverkefni sem félagið hefur haft tök á að láta verða að veruleika vegna erfðagjafa.
Enginn erfðafjárskattur af erfðagjöfum
Samkvæmt breytingu á lögum um erfðafjárskatt í desember 2015 er enginn erfðafjárskattur af gjöfum sem falla til félagasamtaka og sjálfseignarstofnana sem starfa að almannaheillum.
Um erfðagjafir
- Arfleiða má félagasamtök eða sjálfseignarstofnanir sem starfa að almannaheillum að þriðjungi eigna sinna þegar arfleifandi á maka eða börn eða að öllum eignum þegar skylduerfingjar eru ekki til staðar.
- Arfur til slíkra félaga er undanþeginn erfðafjárskatti.
- Nauðsynlegt er að gera erfðaskrá til að tryggja að arfur berist þangað sem arfleifandi óskar.
- Erfðaskrá má gera hvenær sem er og breyta að vild. Best er þó að gera erfðaskrá fyrr en seinna.
- Gott er að varðveita erfðaskrá á tryggum stað, svo sem hjá sýslumanni, í bankahólfi eða hjá einhverjum sem treyst er fyrir því að varðveita hana þar til hennar verður þörf.
Krabbameinsfélagið þakkar öllum þeim sem stutt hafa við starfsemi félagsins með því að minnast þess í erfðaskrá. Krabbameinsfélagið leggur sérstaka áherslu á að fara í hvívetna að fyrirmælum arfleifanda varðandi ráðstöfun erfðagjafar.
Viltu fá nánari upplýsingar um erfðagjafir?
Nánari upplýsingar má finna á erfdagjafir.is. Einnig getur þú sent tölvupóst á arni@krabb.is eða helgi@krabb.is, hringt í síma 540 1900 eða fengið sendan bækling sem fjallar um erfðagjafir til góðgerðarmála.