Dekrað við okkur í tætlur
Guðbjörg Þorsteinsdóttir er með mikla veiðidellu. Hún ákvað að sækja um í Kastað til bata til að sameina veiðiáhugann og kynnast í leiðinni konum með sömu lífsreynslu og hún, að hafa greinst með brjóstakrabbamein.
Er hægt að fara fram á meira?
,,Það var dekrað við okkur í tætlur” byrjar Guðjörg á að segja með hlýju í röddinni þegar við ræðum ferðina ,, með dásamlegum mat frá morgni til kvölds, fallega frambornum, í guðdómlega fallegri náttúru með frábærum töffurum úr kvennadeild Stangaveiðifélags Reykjavíkur og yndislegum konum með sömu lífsreynslu. Hvað er hægt að fara fram á meira?”.
Guðbjörg greindist með leghálskrabbamein árið 2010 og brjóstakrabbamein 2020. Hún er með BRCA og greindist í reglubundnu eftirliti. Af því að hún greinist í Covid þá var minna í boði fyrir fólk með krabbamein. Hún þurfti því að fara ein upp á spítala í meðferð og halda sig frá öðru fólki. Hún ákvað að vinna meðfram meðferðinni, enda allir meira og minna í fjarvinnu á þessum tíma, var staðföst í að vera Guðbjörg i vinnunni og fá pásu frá því að vera Guðbjörg með krabbamein því hún vissi hvað hennar biði, eftir reynslu fyrri meðferðar.
Fór á hnefanum
,,Ég fór í gegnum meðferðina við brjóstakrabbameini á hnefanum, verð að viðurkenna að í dag hefði ég tekið meira tillit til mín og hvílt mig meira en á þessum tíma gat enginn sannfært mig um neitt annað en að vinna, vera Guðbjörg í vinnunni” segir hún kankvís en hún vinnur á stórum vinnustað og lét einungis sitt nánasta samstarfsfólk vita.
,,Hins vegar var það einstök reynsla að vera með öðrum konum sem höfðu greinst með brjóstakrabbamein, ræða um meðferðina, batann, sögurnar okkar og lífið. Það gerðum við í Kastað til bata og er ógleymanleg lífsreynsla”.
Út fyrir þægindarammann
Aðspurð hvað henni fannst erfiðast í ferðinni segir hún að stíga inn í óvissuna, þekkja enga af ferðafélögunum. ,,Með því að deila bíl og herbergi með ókunnugri manneskju steig ég hressilega út fyrir þægindarammann en um leið voru það dásamleg kynni því við náðum svo vel saman. Þannig að á endanum varð þetta ekkert mál heldur yndisleg reynsla”.
Það auðveldasta segir hún hlæjandi hafa verið að setjast til borðs og borða dásamlegan mat sem var fallega fram borinn.. ,,Það var eldaður alveg geggjaður matur, bókstaflega dekrað við okkur í alla staði”.
En það sem stóð upp úr segir Guðbjörg annars vegar vera reynsluna og hins vegar allar þessar dásamlegu konur. ,,Eftir að við komum okkur fyrir tókum við kastæfingar og óðum síðan saman út í á, það var falleg athöfn og yndisleg. Þó ég sé vön að vaða þá var þetta frábær upplifun, að sjá aðrar konur vaða yfir á í fyrsta skipti og hvað þær voru uppnumdar, því við gerðum þetta saman, með stuðningi við hverja aðra”.
Konurnar ræddu reynslu sína af meðferðinni og deildu sögum sínum fyrra kvöldið ,,Það var magnað samtal, nærandi og gott” segir Guðbjörg ,,Þessi ferð var því marglaga, við ræddum veikindin sem voru okkur mis erfið, þetta var tilfinningarússibani en heilt yfir nærandi og gefandi. Við eigum lífsreynsluna sameiginlega en fórum í gegnum hana á mismunandi hátt”.
Valdi hreyfingu og gleði
Guðbjörg segist til að mynda hafa unnið sig frá áfallinu við að greinast með brjóstakrabbamein, 10 árum eftir leghálskrabbameinið með því að hreyfa sig. Hún vildi síður dvelja í krabbameininu heldur valdi hreyfingu þegar hún gat. ,, Það gefur mér svo góða hvíld frá álagi og streitu að hreyfa mig, gera eitthvað annað sem dreifir huganum. Veiði hefur þau áhrif til að mynda, þú þarft að einbeita þér við að kasta, gæta þín að detta ekki í ána, átta þig á hvar fiskurinn er og vera hér og nú. Þetta gerir það að verkum að þú getur ekki hugsað um áföll eða önnur verkefni lífsins. Ég valdi gleðina fyrst og fremst og hef hugsað vel um mig í kjölfar veikindanna. Lífið er gott”.