Beint í efni
Stock_TVIST_KRA_Ny_dagdeild_4

Ný dag­deild

Landspítali gegnir lykilhlutverki í þjónustu við fólk sem greinist með krabbamein hér á landi, bæði varðandi greiningu og meðferð.
Ný dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala er nauðsyn. Leysum málið - lausnin er til!

Landspítali gegnir lykilhlutverki í þjónustu við fólk sem greinist með krabbamein hér á landi bæði varðandi greiningu og meðferð. 

Þau sem fá lyfjameðferð við krabbameinum fá hana flest á dagdeild blóð- og krabbameinslækninga á Landspítala. Á deildinni er einnig veitt ráðgjöf vegna lyfjameðferða sem gefnar eru á landsbyggðinni.

Deildin hefur fyrir löngu sprengt utan af sér húsnæðið.

Ný dagdeild er nauðsyn. Leysum málið - lausnin er til!

Málið varðar okkur öll. Einn af hverjum þremur Íslendingum getur vænst þess að greinast með krabbamein á lífsleiðinni. Hin eru flest aðstandendur.

Þáttur Krabbameinsfélagsins

Í 70 ára baráttu sinni gegn krabbameinum hefur Krabbameinsfélagið unnið þrekvirki og lyft mörgum grettistökum. Skýr áform félagsins um að fækka nýjum tilfellum krabbameins, fækka dauðsföllum af völdum sjúkdómsins og bæta lífsgæði þeirra sem greinast með sjúkdóminn eru leiðarljós í starfseminni.

Krabbameinsfélagið hefur lengi haft áhyggjur af aðstöðuleysi deildarinnar og áhrifum þess á þau sem fá og veita meðferð. Krabbameinsfélagið hefur átt í viðræðum við Landspítala í eitt og hálft ár vegna málsins. Landspítalinn hefur lagt fram hugmynd að lausn. Félagið vill leggja sitt af mörkum til að skapa fyrsta flokks aðstöðu eins fljótt og auðið er.

Markmið Krabbameinsfélagsins með þeirri verkefnasíðu sem hér hefur verið sett upp er að upplýsa um mikilvægi verkefnisins, kynna hugmynd og tillögu Landspítala að lausn sem getur verið „handan við hornið“ ef stjórnvöld leggjast á árar með Krabbameinsfélaginu og Landspítalanum um að setja uppbyggingu deildarinnar í forgang.