Vinirnir styrkur í gegnum krabbameinsferlið
„Ég hef alltaf verið meðvituð og þakklát fyrir minn stóra og sterka vinahóp sem hefur verið samheldinn frá því í grunnskóla. Auk þess hef ég eignast fleiri góða og trausta vini í gegnum tíðina sem hafa reynst mér mikill styrkur í gegnum krabbameinsferlið. Að eiga svo stóran og frábæran vinahóp var að mínu mati eins og eitt af meðferðarúrræðunum. Vinirnir höfðu ómælda þolinmæði til að hlusta á mig, sýna skilning og stuðning en á sama tíma voru þeir einnig tilbúnir að gleyma öllum erfiðleikum með mér ef því var að skipta.“
Saga Svanhildar Ólafsdóttur
Svanhildur hefur tvisvar sinnum greinst með brjóstakrabbamein, í júní 2015 og í desember 2016. Fyrst var meinið fjarlægt með fleygskurði sem og eitlar úr handarkrika. Hún fór í fjórar lyfjagjafir með þriggja vikna millibili og svo vikulegar lyfjagjafir í tólf vikur. Þar á eftir var brjóstið geislað 35 sinnum.
„Meðferðin tók á bæði andlega og líkamlega. Tilfinningarússibaninn fór allan skalann og sumir dagar voru verri en aðrir. Ég á stóra og samheldna fjölskyldu. Er rík af fimm börnum og traustum eiginmanni. Það var heilmikill skóli fyrir mig að vera í hlutverki sjúklings, maka, móður og dóttur á sama tíma, því ég vildi vera styrkur fyrir börnin mín. En svo leyfði ég mér að gráta í faðmi eiginmannsins sem einnig glímdi við allar þessar tilfinningar.“
Þegar krabbameinið kom upp í seinna skiptið upplifði Svanhildur það á töluvert ólíkan hátt. Sjúkdómurinn var ekki eins sýnilegur, hún missti ekki hárið í seinna skiptið en sárið í sálinni var stærra: „Reiðin var meiri, mér fannst ósanngjarnt að þurfa að ganga í gegnum þetta ferli svo fljótt aftur, mér fannst meira að mér vegið og hættan raunverulegri. Ég upplifði stundum að það væri meiri krafa sett á mig að tækla seinni meðferðina eins vel og ég hafði gert í fyrra skiptið en tilfinningalega séð þá reyndist hún töluvert erfiðari.“
Ýmiskonar aukaverkanir hrjáðu Svanhildi í seinna ferlinu sem hún hefur verið að vinna með; minna þol, doði í handlegg og breytt líkamsmynd auk þess sem hún fékk blóðtappa í hægri handlegg út frá lyfjabrunni og þurfti að sprauta sig daglega í sex mánuði vegna þess.
Svanhildur telur mikilvægt að leyfa öllum tilfinningaskalanum að koma fram þegar fólk glímir við svo alvarlegan sjúkdóm:
„Mér fannst hjálplegt að skrifa mig í gegnum ferlið og að leyfa fjölskyldu og vinum að lesa skrifin því þau útskýrðu líðan mína auk þess sem ég gat komið skilaboðum til margra í einu. Það er misjafnt hvernig við tökumst á við erfiðleika í lífinu. Það sem hentaði mér þarf ekki að henta öðrum. Þess vegna er mikilvægt að vera sanngjarn við sjálfan sig og hlusta á eigin þarfir frekar en að elta uppskriftir annarra.“
Það sem veitti Svanhildi mestan stuðning var þegar vinkonurnar komu í kaffi, hringdu og héldu áfram að vera vinkonur; „Vinahópurinn var boðinn og búinn að veita andlegan, félagslegan eða fjárhagslegan stuðning og stóð þétt við bakið á mér, sem var algjörlega ómetanlegt. Að finna alltaf að ég tilheyrði hópnum skipti öllu!
„Það sem fjölskylda og vinir kunna best af öllum er að vera hreinskilin, að þora að spyrja erfiðu spurninganna og hafa hugrekki til að heyra erfiðu svörin.“
Uppfært 21.9.2020.
Svanhildur hefur unnið markvisst í því að byggja sig upp á líkama og sál og glímir ekki við hamlandi aukaverkanir í kjölfar meðferðanna. Hún segir vinahópinn einstakan og hafa ávallt staðið við bakið á henni:
„Ferlið hefur líka styrkt mig í þátttöku í félaginu, bæði í stjórn Krabbameinsfélagsins og sem formaður Krabbameinsfélags Árnessýslu. Ég er mjög þakklát fyrir allt það fólk sem ég hef kynnst í gegnum það starf og finnst dýrmætt að tilheyra svo stórum jafningjahópi og geta miðlað af reynslunni. Mér finnst líka frábært að finna samstöðuna í samfélaginu varðandi málefni Krabbameinsfélagsins. Það eru allir tilbúnir að leggja sitt af mörkum á einn eða annan hátt.“