„Fjölskyldan og vinirnir kötta krappið“
Saga Láru Guðrúnar Jóhönnudóttur
„Í fyrsta skipti sem ég grét fyrir framan lækninn minn var þegar ég spurði út í brjóstagjöf eftir krabbameinsmeðferð. Það var þá sem ég áttaði mig á því hver missirinn væri fyrir mig persónulega. Ég sem hafði mjólkað eins og besta beljan í fjósinu þegar strákurinn minn var á brjósti. Missirinn var ekki fagurfræðilegur, heldur líffræðilegur. Læknirinn hughreysti mig þó fljótt og sagði mér dæmi um að tvíburamæður hafi mjólkað nóg með einu brjósti. Líkaminn er svo sannarlega magnað fyrirbæri og ég treysti líkama mínum.“
Það var á Valentínusardaginn í febrúar 2017 sem Lára Guðrún var greind með brjóstakrabbamein, aðeins 33 ára gömul. Móðir hennar lést fertug að aldri úr sama sjúkdómi þegar hún var einungis 17 ára. „Það kom í minn hlut að tilkynna systkinum mínum, þá 10 og 7 ára, að móður okkar væri látin. Það var síðan mjög súrrealískt 15 árum síðar að tilkynna 7 ára einkasyni mínum að ég væri með sama sjúkdóm og amma hans hefði látist úr. Erfið tímabil geta verið bæði falleg og dýrmæt og við fórum aftur í gegnum sorgina sem fylgir móðurmissinum. Ég var lánsamari en hún, greindist snemma, fékk vægari meðferð og batahorfur eru mjög góðar.“
Lára Guðrún er í andhormónalyfjameðferð sem setur líkamann í tímabundin tíðahvörf. Hún og maðurinn hennar eiga fósturvísa og stefna á barneignir á næsta ári. Þá fær Lára Guðrún að gera hlé á meðferðinni og þá kemur líka í ljós hvort þau geta eignast barn náttúrulega eða þurfi að nota einn af sex fósturvísum, eða “manneskjufræjum”, eins og þau kalla þá, en þau höfðu áður farið í gegnum fyrirbyggjandi ófrjósemismeðferð.
„Það erfiðasta sem ég hef þurft að læra í lífinu er að gera hluti fyrir mig sjálfa og biðja um aðstoð. Íslenska hugarfarið er kannski svolítið að fara alltaf áfram á hnefanum. Fjölskylda og vinir eru mikilvæg þegar maður greinist með krabbamein. Þau kunna að „kötta krappið“ og mæta bara og búa til varnarhjúp í kringum mann með ótakmarkaðri ást. Ég óska öllum þess að vera svo lánsamir að eiga þó ekki nema væri eina svoleiðis manneskju sér við hlið.“
“Hversdaglegi stuðningurinn skiptir svo miklu máli. Litlu blæbrigðin í því sem fólk gerir. Ég man þegar litli bróðir minn klæddi mig í hlýja sokka á spítalanum þegar hann sá að mér var kalt. Og þegar systir mín bauð mér til Köben til að kveðja brjóstið með því að skála í rósavíni, gráta og hlæja saman. Maðurinn minn gefur mér styrk og heilsu daglega með ást og ofureldamennsku fyrir “magahjartað”. Sigurbjörg og Áslaug gáfu manninum mínum hvíld og elduðu handa mér risottobollur og knúsuðu mig. Dísa og Daði, tengdaforeldrar, hafa gengið mér í móður- og föðurstað. Guðný, Sigrún og Inga María, vinkonur mínar, vita hvenær taugakerfið er á röngunni og hafa ráð við öllu. Öll vita þau hvenær ég þarf hvíld. Þau skilja mig.
Að lokum mælir Lára Guðrún með því að fólk sem greinist með krabbamein gefi öllum í kringum sig hlutverk. Það hafi reynst góð aðferð fyrir hana: „Hver fær það hlutverk að láta þig hlæja? Gefa þér góðan mat? Fara í göngutúr? Koma með í lyfjameðferð? Passa að þú lítir vel út? Taki myndir? Það er valdeflandi að gefa aðstandendum hlutverk. Því sá sem greinist með krabbameinið er oftast sterkasti hlekkurinn í keðjunni. Aðstandendurnir mynda svo hina hlekkina sem halda þér á floti.“