„Ég er orðin þakklátari fyrir allt hið smáa í lífinu“
„Ég er þakklátust fyrir þau í fjölskyldunni sem voru til staðar fyrir mig og leyfðu mér að takast á við þessi veikindi mín eins og ég vildi fá að takast á við þau. Síðan eru það vinkonurnar, vinkonuhóparnir og vinnufélagar sem skiptu miklu máli. En fyrst og fremst er ég þakklát fyrir að vera enn lifandi og við góða heilsu á ný.“
Saga Halldóru M. Steingrímsdóttur
Halldóra greindist með brjóstakrabbamein í nóvember 2016 og fór í fjórar lyfjameðferðir og geislameðferð í kjölfar aðgerðar þar sem meinið var tekið og allir kirtlar undir vinstri handlegg: „Í fyrstu lyfjameðferðinni missti ég næstum 5 kg á sólarhring, fékk ofboðsleg hitaköst og mestu ógeðisvanlíðan og ógleði sem ég man eftir. Fæturnir báru mig ekki og ég taldi niður mínúturnar af þessum 82 dögum í helvíti. Ofan á þetta bættist svo hræðslan við að deyja. Hún var erfiðust.“
Á þessum tímapunkti vildi Halldóra einangra sig. Yngri sonurinn eldaði matinn, maðurinn kom með og studdi hana í lyfjameðferðum og eldri sonurinn veitti henni stuðning og trú á bata auk þess sem bræður hennar töluðu nánast daglega við hana í gegnum netið.
„Sumir tóku því persónulega að ég vildi einangra mig, fannst eins og ég vildi ekki leyfa þeim að taka þátt í lífi mínu rétt áður en ég væri mögulega að deyja. Það fannst mér svo sorglegt, því ég þurfti á þeim að halda á minn hátt, en þá höfðu þeir lokað á samskiptin. En flestallir voru einfaldlega í sjokki og vildu allt fyrir mig gera og leyfa mér að hafa hlutina eins og ég vildi.“
Hún vann úr veikindunum á marga vegu, leit aldrei á sig sem sjúkling en margir hlutir hjálpuðu henni við að vinna sig í gegnum ferlið. Bókin Healing your life eftir Louise L. Hay skipti miklu máli, stuðningur frá Ljósinu, Krabbameinsfélaginu, Hreyfingu og konunum á geisladeild Landsspítalans: „Þær voru eins og englar í mannsmynd.“
„En mér fannst mjög erfitt að verða sköllótt og enn erfiðara að missa augabrýrnar. Þá fannst mér ég fyrst líta út eins og krabbameinssjúklingur því ég hef alltaf verið svipmikil.“
Halldóra vildi lækna sál, anda og líkama og sótti meðal annars námskeið hjá Krabbameinsfélaginu:
„Ég vildi fyrirgefa sem flestum úr fortíðinni og reyna að sættast við hana. Ég er orðin þakklátari fyrir allt hið smáa í lífinu og bara flesta hluti eftir að hafa fengið annað tækifæri. Maður ræður hvernig maður tekst á við eigin veikindi og þarf að líta á þetta sem verkefni en alls ekki eitthvað sem þurfi að berjast við.“
Að lokum segist Halldóra vilja láta gott af sér leiða í lífinu: „Mig langar að verða betri í svo mörgu. Í kærleika, að sleppa tökunum, vera æðrulaus, dæma ekki, vera í flæði, sjá húmor í hlutunum, leyfa mér að vera varnarlaus og sýna þannig styrk, viðurkenna að ég veit ekki eða kann ekki, verða betri golfari og listmálari. Vera alltaf til staðar fyrir syni mína þegar þeir þurfa á að halda, vera heil, traust og trú. Upplifa, grípa tækifærin, elska og njóta meira og meira með hverjum deginum.“
Uppfært 16.9.2020.
Halldóra ákvað að halda lífi sínu áfram á svipaðan hátt og hún hafði gert áður en hún greindist með krabbamein. Hún segist vinna meira í sjálfri sér og að hún standi betur með sér en áður.
„Þegar ég lít til baka til þessa tíma eru nokkrir hlutir sem standa upp úr. Að elsta systir mín skyldi hafa boðist til að flytja heim frá Asíu til að veita mér stuðning. Ég er óendanlega þakklát fyrir það. Mér finnst mikilvægara en áður að hafa húmor í lífinu og að hafa gaman og svo passa ég betur en áður að vera hamingjusöm. Þetta skiptir svo miklu máli fyrir heilsuna,“ segir hún.
Eitt af því sem Halldóra gerir til að auka vellíðan er að skrifa þakklætisdagbók. Markmiðið er að skrifa fimm atriði á dag og það telur hún auka á hamingju sína. Núvitund skiptir hana einnig miklu máli og ef hún vaknar á nóttunni notar hún andardráttinn til að hugleiða: „Þetta hvoru tveggja hefur leitt til þess að ég tek betur eftir öllu í umhverfi mínu, til dæmis í náttúrunni sem er svo gefandi. Að finna ilminn af blómunum, taka eftir trjánum, fjöllunum og fuglunum. Ég verð þakklátari fyrir sköpunarverkið og lífið – og um leið hamingjusamari.“
Halldóra hóf vinnu tíu mánuðum eftir greiningu og segist ekki hafa áttað sig á að hún var ekki tilbúin að hefja fulla vinnu á þeim tíma: „Ég var orkulausari og minnið var ekki alveg upp á sitt besta eftir þennan álagstíma. Það tók tíma að koma til baka. Ég vinn allan daginn en þetta háir mér aðeins ennþá. Ég man ekki eins vel og áður og er orkuminni. Þegar ég upplifi þessi einkenni finnst mér fínt að hafa húmor fyrir sjálfri sér,“ segir hún og minnist á plakat Krabbameinsfélagsins fyrir vinnustaði um einkenni eftir krabbameinsmeðferð sem hún hefði viljað afhenda atvinnurekendum sínum þegar hún kom aftur til vinnu.
Heilsusamlegra mataræði og hreyfing varð Halldóru hugleikið eftir greiningu. „Ég er agaðri en áður og reyni eins og ég get að forðast hvítan mat eins og hveiti, sykur og mjólkurvörur. Ég tel mig vera á 80% hreinu mataræði og 20% hvítu. Hreyfing hefur áhrif á andlega og líkamlega líðan og mér finnst ég líta betur út þegar ég er á hollu mataræði, er ekki jafn bólgin í andliti og ekki með jafn uppblásinn ristil og ég var stundum með.“ Hún leggur áherslu á að vera í góðu formi: „Það getur skipt sköpum að vera í góðu formi þegar þú veikist af krabbameini. Þú kemur kannski ekki í veg fyrir að fá krabbamein, en þú nærð þér fyrr og betur. Hreyfing í meðferð hjálpar líka mikið upp á að ná sér fyrr.“
Að lokum segir Halldóra að það skipti hana máli að láta gott af sér leiða: „Mér finnst gefandi að láta gott af mér leiða og væri til í að fá fleiri tækifæri til að gera það.“