Beint í efni

Heiðrar minn­ingu móð­ur sinnar með sköpunar­gleði og húm­or

„Mamma er almennt mjög mikil fyrirmynd hjá mér. Hún var svo mikill karakter og ég finn það alveg strax að hún er alltaf innblásturinn hjá mér,“ segir leikstjórinn og kvikmyndagerðarkonan Birna Ketilsdóttir Schram. Hún er leikstjóri Bleiku slaufunnar í ár og er málefnið er henni afar kært en Birna missti móður sína, Örnu Schram, úr krabbameini í fyrra. Lesa nánar viðtal á Vísir.is við Birnu.

Málefni mjög nærri hjartanu

Það skiptir Birnu miklu máli að velja verkefni sem eru nærandi fyrir sig og segist hún ekki hafa hugsað sig tvisvar um þegar það stóð til að gera verkefni fyrir Krabbameinsfélagið.

„Ég var búin að vera í sambandi við Rúnar Inga hjá framleiðslufyrirtækinu Norður, sem er búið að vera að gera mikið af spennandi og skemmtilegum hlutum. Hann heyrði í mér í byrjun ágúst með þessa hugmynd, Bleiku slaufuna, og ég þurfti auðvitað ekki að hugsa mig tvisvar um.

Þetta er málefni sem er mjög nærri mínu hjarta því ég missti mömmu mína úr krabbameini í fyrra og mig langaði að gera allt sem ég gæti til þess að Krabbameinsfélagið og Bleika slaufan fengi þá athygli sem þau eiga skilið að fá.“

Hún segir verkefnið hafa verið mjög skemmtilegt og unnið með frábærum hópi, m.a. Norður og Tvist auglýsingastofu. „Í ár var áhersla á að ýta undir kærleikann og samstöðuna og lífið er núna tilfinninguna. Þetta er held ég stærsta Bleika slaufan herferðin sem þau hafa farið í hingað til og það var ómetanlegt að taka þátt. Auðvitað er þetta mjög alvarlegt málefni og maður vill ekki vera bara í einhverju alveg silly en samt er mikilvægt að sýna þessa fegurð og minna á að þú ert aldrei ein í krabbameinsmeðferð og heldur ekki sem aðstandandi.“