25 ára afmæli Bleiku slaufunnar - Sýning í Loftskeytastöðinni
Við bjóðum ykkur öll hjartanlega velkomin á uppboð og einstaka sýningu þar sem allar Bleiku slaufurnar sem framleiddar hafa verið á Íslandi verða til sýnis!
Í Loftskeytastöðinni við Suðurgötu stendur sýningin ‚Ljáðu mér vængi: Ævi og áhrif Vigdísar Finnbogadóttur. Vigdís er verndari Krabbameinsfélagsins og því fer einstaklega vel á að í viðburðarými Loftskeytastöðvarinnar hefur verið sett upp sýning í tilefni af 25 ára afmæli Bleiku slaufunnar á Íslandi. Á sýningunni gefur að líta allar Bleikar slaufur Krabbameinsfélagsins frá upphafi og gefst gestum tækifæri á að kaupa gamlar sem nýjar slaufur.
Opnunarhóf verður haldið hátíðlega laugardaginn þann 5. október kl. 14:00.Í opnunarhófinu kl. 14:30 verður haldið uppboð á bolum sem átta vinsælir listamenn hafa skreytt og tengjast annaðhvort Bleiku slaufunni eða hinni fleygu setningu Vigdísar Finnbogadóttur: "Ja... það stóð nú aldrei til að hafa íslensku þjóðina á brjósti". Allur ágóði rennur til Krabbameinsfélagsins.
Bleika slaufan kom upprunalega til landsins í gegnum heildverslunina Artica árið 2000 og var dreift í verslanir en fólk gat styrkt baráttuna gegn brjóstakrabbameinum með framlögum sem runnu til Krabbameinsfélagsins og Samhjálpar kvenna. Fyrstu árin var Bleika slaufan afar einföld og úr taui en hún festi sig hratt í sessi og var þegar árið 2002 orðið árlegt árveknisátak Krabbameinsfélagsins, sem þjóðin fylkti sér á bak við.
Árið 2007 framleiddi Krabbameinsfélagið í fyrsta sinn sérstaka Bleika slaufu og önnur tímamót urðu árið eftir þegar íslenskur hönnuður átti í fyrsta sinn heiðurinn af Bleiku slaufunni. Frá árinu 2008 hafa íslenskir hönnuðir, í góðu samstarfi við Krabbameinsfélagið, skapað einstaka Bleika slaufu á hverju ári. Í þeim hópi eru okkar færustu hönnuðir og gullsmiðir. Ein undantekning er á þessu, árið 2011, þegar afrískar konur hönnuðu og framleiddu slaufuna og fengu þá í fyrsta sinn laun fyrir sína vinnu.
Á árabilinu 2013 til 2018 stóðu Krabbameinsfélagið og Félag íslenskra gullsmiða fyrir samkeppni um hönnun Bleiku slaufunnar meðal gullsmiða.Frá 2010 hefur sjónum verið beint að krabbameinum hjá konum í átaki Bleiku slaufunnar, þó brjóstakrabbamein sé ávallt í forgrunni enda algengasta krabbamein kvenna.
→ Sýning Bleiku Slaufunnar stendur frá 5. - 12. Október.Staðsetning: Loftskeytastöðin menningarmiðstöð, við hlið Veraldar húss Vigdísar, Háskóla Íslands við Suðurgötu.
Uppboð á bolum eftir þekkta Íslenska listamenn hefst kl. 14:30 í opnunarhófinu, laugardaginn 5. október. Þar gefst tækifæri til að styrkja Krabbameinsfélagið á skemmtilegan hátt.
Hlökkum til að sjá ykkur!