Beint í efni

Fimm mis­tök nýrra hlaup­ara

Ertu að hugsa um taka þátt í Reykjavíkurmaraþoni? Hér eru fimm atriði sem margir flaska á í undirbúningnum.

Notkun á óviðeigandi útbúnaði

Ef þú ert að byrja að hlaupa þá er alger óþarfi að kaupa rándýran búnað. Léttur fatnaður sem andar nokkuð vel dugar. Mikilvægast er þó að huga að skóbúnaði. Mörg nota skófatnað sem til dæmis hefur verið brúkaður inni á líkamsræktarstöð. Í þann skóbúnað vantar oft mýkt og stuðning sem nauðsynlegur er ef ætlunin er að hefja götuhlaup. Góðir hlaupaskór eru oft á verðbilinu 15-35 þúsund kr. og er þeim fjármunum vel varið. Sum segja meira að segja „þú færð það sem þú greiðir fyrir þegar kemur að hlaupaskóm“.   

Rjúka af stað og huga ekki að endurheimtinni

Rannsóknir benda eindregið til þess að það borgi sig að fara hægar yfir í upphafi æfinga, til þess að undirbúa líkamann fyrir fyrirliggjandi átök. Mörg velja að ganga hratt í nokkrar mínútur áður en byrjað er að hlaupa. Það er góð leið til að hita upp og gera líkamann kláran. Sömuleiðis flaska mörg á því að hægja ferðina síðustu nokkur hundrað metrana (s.k. niðurlag, e. cool down) og teygja létt á vöðvum að loknu hlaupi. Með því að fara hægar yfir síðustu 300-400 metrana og með því að teygja létt að loknu hlaupi virkjar maður endurheimt líkamans enn betur og gerir sitt til að minnka líkur á meiðslum. Upphitun, niðurlag og teygjur; það er málið! 

Ætla sér of mikið

Mörg ætla sér of mikið þegar byrjað er að hlaupa. Ef hlaupaáætlun er of krefjandi aukast líkurnar á meiðslum. Betra er að fara of hægt af stað og jafnvel upplifa að verkefnið sé ekki nægilega krefjandi heldur en að ætla sér of mikið. Fyrir mörg er blanda af hlaupi og hraðri göngu prýðilegur grunnur.

Hraðinn skiptir öllu

Þau sem eru að stíga sín fyrstu skref í götuhlaupum velja sér oft ákveðinn hring til að hlaupa. Eftir því sem styrkur og geta eykst verður mælikvarðinn oft að auka hraðann og fara hringinn hraðar en áður. Gott er að muna að fjöldi kílómetra sem farnir eru, þó hægt sé yfir farið, leika mikilvægt hlutverk í því styrkja grunninn sem mikilvægur er fyrir meiðslalausan hlaupaferil. Best er samt að blanda þessu saman; fara stundum hringinn hraðar og stundum lengja hringinn og fara þá hægar yfir (til dæmis ganga og hlaupa á víxl). 

Hlaup eingöngu

Kemstu ekki á hlaupaæfingu en kemstu á ballettæfingu? Það er nú bara hið besta mál. Ástundun flestra íþrótta sem á annað borð krefjast líkamlegra áreynslu skila sér inn í hlaup. Þannig má með sanni segja að hjól, sund, lyftingar, þolfimitímar, fótbolti, fjallgöngur og margt margt fleira sé góður og jafnvel mikilvægur þáttur í hlaupa undirbúningi.